2.4.2023 10:34

Mjótt á munum í Finnlandi

Stjórnarmyndun að kosningum loknum kynni að verða flókin. Líklegt er að jafnaðarmenn og Samlingspartiet myndi rauð-bláa stjórn.

Kosið er til þings í Finnlandi í dag, 2. apríl. Utan Finnlands beinist athygli mest að því hvort Sönnu Marin, forsætisráðherra og Jafnaðarmannaflokki hennar, tekst að halda stjórnarforystu. Sönnu Marin er líkt við „rokkstjörnu“ af alþjóðlegum fréttastofum.

Hún var yngsti forsætisráðherra heims, 34 ára, móðir eins barns, þegar hún tók við stjórnarforystunni árið 2019. Í könnunum hefur hún notið mikilla persónulegra vinsælda meðal Finna. Niðurstöður kannana sem birtust fimmtudaginn 30. mars sýna flokk hennar, SPD, hins vegar í þriðja sæti (18,7%) á eftir þjóðernissinnaða Finnaflokknum (19,5%) og mið-hægri flokknum, Samlingspartiet (19,8%).

Hefðin er sú í Finnlandi að forystumaður þess flokks sem kemur stærstur frá kosningum fær umboð til stjórnarmyndunar. Marin stjórnar nú ríkisstjórn með þátttöku eigin flokks, Miðflokksins, Græningja, Vinstra bandalagsins og Sænska þjóðarflokksins í Finnlandi.

Margir bera lof á forsætisráðherrann fyrir að hafa haldið vel á málum á tíma COVID-19-faraldursins og við að leiða Finnland inn í NATO, aðrir segja að hneykslanleg framkoma hennar í næturlífinu og ungæðislegt hátterni hæfi ekki embætti forsætisráðherra.

Election-finland-voting-ballot-box-hand-woman-putting-her-vote-flag-background-101908155

Fyrir þá sem fylgjast með viðbrögðum vestrænna forystumanna í stjórnmálum vegna ódæðisverka Rússa undir forystu Pútins í Úkraínu er aðdáunarvert að sjá hve hiklaust Sanna Marin talar gegn ofbeldismönnunum og krefst sigurs yfir þeim. Þar fer ekkert á milli mála eins og skýrt kom fram í sjónvarpsviðtali þegar hún heimsótti Ísland fyrr á þessum vetri eða þegar hún var nýlega í Kyív og sagði að Finnar ættu að láta Úkraínumönnum í té orrustuþotur.

Petteri Orpo, formaður Samlingspartiet, hefur einbeitt sér að efnahagsmálum í kosningabaráttunni og sakar stjórnina um ábyrgðarleysi með hækkun ríkisskulda. Hlutfall þeirra miðað við verga landsframleiðslu var 64% árið 2019 en er 73% núna.

Finnaflokkurinn er af fréttastofum kenndur við popúlisma, lýðskrum. Fylgi við hann hefur vaxið undanfarið misseri samhliða hækkun á orkuverði og öðru vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Riikka Purra, leiðtogi flokksins, varar Finna við því að sama gerist í landi þeirra og í Svíþjóð vegna útlendingavandans og glæpagengja. Flokkurinn fylgir harðri stefnu í útlendingamálum.

Finnaflokkurinn átti aðild að mið-hægri stjórn Finnlands sem mynduð var 2015 en klofnaði í hóp harðlínumanna og þeirra sem vildu hófsama stefnu. Í kosningunum 2019 urðu harðlínumennirnir annar stærsti flokkurinn í Finnlandi og hafa setið á þingi síðan. Þeir hafa langtímastefnu um úrsögn Finnlands úr ESB og eru á móti því að stefna að kolefnisjafnvægi í Finnlandi árið 2035.

Stjórnarmyndun að kosningum loknum kynni að verða flókin. Líklegt er að jafnaðarmenn og Samlingspartiet myndi rauð-bláa stjórn, takist að finna málamiðlun um efnahagsstefnuna. Sanna Marin vill ekki starfa með Finnaflokknum sem hún líkir við rasista. Samlingspartiet og Finnaflokkurinn fylgja svipaðri efnahagsstefnu en greinir á um ESB, útlendinga- og loftslagsmál.