31.5.2022 11:09

Misnotkun útlendingamála

Undanfarna daga hefur stjórnarandstaðan innan þings látið eins og reka megi fleyg í stjórnarsamstarfið með útlendingamál að vopni.

Sé unnið að sameiginlegri niðurstöðu vegna ólíkra sjónarmiða við ríkisstjórnarborðið birtist fljótt vonin um að sættir takist ekki og samstarfið bresti. Leiðari Elínar Hirst í Fréttablaðinu í dag (31. maí) er í þessum dúr. Reifi ráðherrar mismunandi skoðanir hvort sem er um sölu á bönkum eða málefni útlendinga er stjórnarsamstarfið „í lífshættu“.

Þetta er sagt um ríkisstjórn sem hefur starfað saman i fjögur ár og ætlar að ljúka öðru kjörtímabili á tíma hernaðarátaka í Evrópu með forsætisráðherra sem er á móti aðild Íslands að NATO en styður þó aðild Finna og Svía að bandalaginu og tekur í lok næsta mánaðar þátt í ríkisoddvitafundi NATO í Madrid þar sem samþykkt verður ný grunnstefna bandalagsins.

Forsætisráðherra stendur að framkvæmd þessarar stefnu af því að fyrirmæli eru um hana í þjóðaröryggisstefnu íslenska lýðveldisins sem alþingi samþykkti 13. apríl 2016:

  • „Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.
  • Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir.“

Á sama hátt og virða ber þessa samþykkt alþingis er ráðherrum skylt að virða gildandi lög og þar með útlendingalögin sem samþykkti voru í víðtækri sátt á alþingi árið 2016. Framkvæmdin hvílir mest á herðum dómsmálaráðherra.

Undanfarna daga hefur stjórnarandstaðan innan þings látið eins og reka megi fleyg í stjórnarsamstarfið með útlendingamál að vopni.

1345298Frá mótmælum á Austurvelli gegn framkvæmd útlendingalaga (mynd mbl.is)

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerði enn eina atlöguna í þessu efni á þingi í gær (30. maí) með fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Kjarni máls Loga var að ósættanlegur ágreiningur væri milli dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra í útlendingamálum.

Forsætisráðherra benti á að frá því að hún settist í embætti sitt árið 2017 hefðu 3.400 einstaklingar fengið vernd á Íslandi. Ekki hallaði á okkur í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir í þessu efni. Þá benti ráðherrann á að innflytjendur væru hér fjölmennir, hlutfall útlendinga hátt í 20% og atvinnuþátttaka þeirra há. Þetta taldi Katrín sýna óréttmæti þeirrar gagnrýni að útlendingaóvild einkenndi stjórnarhætti undir hennar forystu.

Undir þá skoðun skal tekið og jafnframt minnt á að undanfarið hafa norræn flokkssystkini jafnaðarmannsins Loga Einarssonar, sem sitja í stólum forsætisráðherra annars staðar á Norðurlöndunum, beitt sér fyrir allt annarri stefnu en Samfylkingin í útlendingamálum og þannig styrkt stöðu sína til forystu meðal þjóða sinna. Hér minnkar Samfylkingin hins vegar jafnt og þétt, breytist í jarðarflokk sem eltir Pírata og útúrboruhátt.

Stóra spurningin er hvað þurfi að gerast hér í útlendingamálum til að stjórnmálamenn sameinist um að beina þeim í norræna og evrópska átt.