2.2.2022 11:36

Mismunun vegna liðskipta

Heilbrigð skynsemi víkur fyrir kerfissjónarmiðum þegar kemur að greiðslum fyrir liðskiptaaðgerðir hér á landi.

Í Morgunblaðinu í dag (2. febrúar) segir frá enn einu málinu þar sem ríkið neitar greiða fyrir liðskiptaaðgerð hér á landi en hefði greitt meira fyrir hana erlendis ef viðkomandi kona hefði leitað þangað. Hún gerði það ekki heldur fór í Klíníkina og greiddi 1,2 m. kr. úr eigin vasa. Hefði aðgerðin verið gerð erlendis kostaði hún 1,7 m. kr. og sjúkratryggingar hefðu greitt þá fjárhæð.

593538Liðskiptaaðgerð (mynd: mbl.is).

Sjúkratryggingar samþykktu að konan mætti leita sér læknismeðferðar innan evrópska efnahagssvæðisins (innan EES) en höfnuðu því að aðgerðin færi fram hjá Klíníkinni, enda væri ekki fyrir hendi samningur um greiðsluþátttöku ríkisins í þeirri meðferð.

Í blaðinu er haft eftir Hilmari Magnússyni, lögmanni konunnar:

„Ég benti meðal annars á að íbúar annarra landa evrópska efnahagssvæðisins virðast njóta betri réttar hér á landi heldur en íslenskir ríkisborgarar. Sænskur maður getur t.d. komið hingað og farið í aðgerð á Klíníkinni og fengið hana greidda hjá sínum opinberu sjúkratryggingum, en ekki íslenskur maður. Þetta segir sitt um réttindi íslenskra sjúklinga.“

Tekist var á um þessi rök fyrir réttinum og féllst dómarinn ekki á þau. Taldi dómarinn að að reglur EES- samningsins væru takmarkaðar við þau tilvik þegar einstaklingar leituðu sér læknismeðferðar erlendis. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar gæti að mati dómsins ekki skuldbundið ríkið til að rýmka þá greiðsluþátttöku þannig að hún tæki til aðgerða sem féllu utan ramma núgildandi reglna.

Af hálfu sjúkratrygginga var því haldið fram að heilbrigðisþjónusta félli undir þjónustu í almannaþágu sem ekki væri af efnahagslegum toga og slík þjónusta lyti sjálfsákvörðunarrétti einstakra ríkja en ekki EES-reglum. Með öðrum orðum gerði fullveldi íslenska ríkisins því kleift að takmarka rétt borgara sinna, greitt væri fyrir liðskiptaaðgerð erlendis en ekki á heimavelli.

Réttur einstaklings til heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu verður aldrei reistur á fyrirmælum Evrópusambandsins, sagði Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, lögmaður sjúkratrygginga.

Dómurinn sýknaði sjúkratryggingar.

Fullveldisrök tengjast mjög umræðum um EES-aðildina. Má ríkið nýta fullveldið gegn eigin borgurum, þeir hafi minni rétt innan eigin lögsögu en utan? Af dóminum verður ráðið að svo sé.

Var ekki íslenskum ríkisborgurum skapaður nýr réttur með EES-aðildinni? Er hann ekki hluti mannréttinda þeirra? Eru þau ekki brotin þegar fullveldi ríkisins er beitt gegn þeim?

Heilbrigð skynsemi víkur fyrir kerfissjónarmiðum þegar kemur að greiðslum fyrir liðskiptaaðgerðir hér á landi. Sætti íslenskir ríkisborgarar sig ekki við ríkisreknar aðgerðir borga þeir einkaaðila sjálfir innan lands eða fara til útlanda á kostnað skattgreiðenda.

Skipt var um heilbrigðisráðherra 28. nóvember 2021. Dómurinn sem hér er nefndur féll 17. desember 2021. Hann sannar enn rangindin á þessu sviði. Ráðherrann getur breytt þessu, vilji hann það.