16.9.2021 9:16

Misheppnuð vinstri Viðreisn

Þröng sýn gerir Viðreisn að jaðarflokki og tengir hann við Samfylkinguna á vinstri væng stjórnmálanna. Viðreisn skipar sér þannig vinstra megin við miðju.

Nú boðar Viðreisn fastgengisstefnu með tengingu við evru. Í Morgunblaðinu í dag (16. september) fer Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flokksformaður þó undan í flæmingi þegar hún er spurð um aðferð við tenginguna. Stefnan er hins vegar skýr.

Í leiðara Morgunblaðsins segir að sérfræðingar í peningamálum, þar á meðal í Seðlabanka Íslands, hafi „réttmætar áhyggjur af hugmyndum um að taka upp gengisfestingu á ný, eins og menn hafi öllu gleymt og ekkert lært“.

Vilji menn læra af reynslunni þurfi þeir ekki að fara aftur í „forsögulegan tíma“. Íslensk stjórnvöld hafi tekið upp einhliða gengisfestingu við myntkörfu á liðinni öld samhliða fjármagnshöftum, þetta hafi dugað „bærilega“ til ársins 1994 þegar fjármagnsviðskipti við útlönd voru gefin frjáls með aðildinni að EES.

Index_1631783769130Minnir Morgunblaðið á að á árinu 2000 neyddist Seðlabankinn „til að verja fastgengið með gjaldeyrissölu og vaxtahækkunum“. Í upphafi árs 2001 var ákaflega gengið á gjaldeyrisforðann og stýrivextir komnir í 11,5%. Var þá gengisstefnunni breytt og krónan sett á flot; gengið féll og verðbólga fór í tæp 10%.

Þess er látið ógetið í leiðara Morgunblaðsins að snemma árs 2000 samdi Seðlabanki Íslands við bandaríska hagfræðinginn Joseph Stiglitz um að hann gerði úttekt á íslensku hagkerfi, einkum þáttum sem vörðuðu fjármálalegan stöðugleika. Hann skilaði skýrslu sinni í júlí 2001 en þá um haustið fékk hann Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2001.

Vegna umræðna um fastgengisstefnu nú er fróðlegt að rýna í 20 ára gamla skýrslu Stiglitz en þar segir meðal annars að fastgengisstefna stjórnvalda (sem afnumin var í mars 2001) hafi ýtt „undir fjármagnsflæði til landsins og þar með viðskiptahallann því markaðsaðilar vanmátu líkurnar á gengisfellingu“. Að auki virðist kenningin um hagkvæm myntsvæði benda til þess að fljótandi gengi henti Íslandi betur en fast gengi. Upptaka verðbólgumarkmiðs og afnám vikmarka krónunnar hafi því verið heppileg stefnubreyting.

Þegar rætt er um stefnu Viðreisnar nú um fastgengisstefnu og tengingu við evruna er ekki um sjálfstætt markmið flokksins að ræða heldur er evran og tenging við hana að mati flokksins „gulrót“ til að laða kjósendur til fylgis við aðildina að ESB sem er upphafs- og lokamarkmið flokksins. Sú þrönga sýn gerir flokkinn að jaðarflokki og tengir hann við Samfylkinguna á vinstri væng stjórnmálanna. Viðreisn skipar sér þannig vinstra megin við miðju.

Í Fréttablaðinu í dag birtist frétt um að skoðanakönnun Maskínu sem birtist 14. september á visir.is og sýndi að ríkisstjórnin væri kolfallin hefði strax leitt til lækkunar á verði hlutabréfa. Í frétt blaðsins segir að hlutabréfaverð hafi lækkað síðustu daga, meðal annars vegna þess að auknar líkur séu á að vinstristjórn taki við stjórnartaumunum. Undanfarna fimm daga hafi úrvalsvísitalan lækkað um 4%. Á sama tíma hafi fjárfestar keypt verðtryggð skuldabréf í auknum mæli en í ljósi lágs vaxtastigs hafi margir fram að þessu fremur horft til hlutabréfakaupa. Heiti Viðreisnar breytist í öfugmæli vegna stefnu flokksins og vinstrimennsku stjórnenda hans.