21.6.2024 11:55

Misheppnuð vantrauststillaga

Þegar lesin er ræða Bergþórs til stuðnings tillögu hans er ljóst að fyrir honum vakti fyrst og síðast að skaprauna þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, stjórnsýsla ráðherra VG vegna hvalveiða var aðeins átylla.

Vísir skýrði frá því að morgni föstudagsins 21. júní að samkomulag hefði náðst um þinglok milli formanna þingflokka og þar er jafnframt sagt frá málum sem verður lokið og þeim sem bíða næsta þings, verði þau endurflutt.

Ljóst er að þinglok verða með öðrum hætti núna en fyrir ári þegar margir þingmenn meðal stjórnarliða voru ósáttir við hvernig skilið var við mikilvæg málefni.

Stjórnarflokkarnir hafa einsett sér að sitja út kjörtímabilið, það er í rúmt ár til viðbótar. Þeir hafa staðist marga áraun á tæplega sjö ára samstarfsferli sínum, þar á meðal afsögn forsætisráðherra og flutning á embætti hans frá Vinstri-grænum til Sjálfstæðisflokksins 9. apríl sl. Slík skipti eru óvenjuleg sé ekki um þau samið í upphafi kjörtímabils. Þau má rekja til þess sem hér hefur aldrei gerst áður, að sitjandi forsætisráðherra biðjist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt til að bjóða sig fram til forseta.

Screenshot-2024-06-21-at-11.54.01Bergþór Ólason flytur vantrauststilllögu sína 20. júní 2024.

Líklega hefði ekki á mörgum þjóðþingum verið látið reyna á þingræðisregluna á þann veg sem Bergþór Ólason, formaður tveggja manna þingflokks Miðflokksins, gerði með því að flytja tillögu um vantraust á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra vegna stjórnsýslu hennar við útgáfu á leyfi til hvalveiða.

Þegar lesin er ræða Bergþórs til stuðnings tillögu hans er ljóst að fyrir honum vakti fyrst og síðast að skaprauna þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, stjórnsýsla ráðherra VG vegna hvalveiða var aðeins átylla.

Þetta er í fullu samræmi við meginerindi þeirra Bergþórs og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í stjórnmálum. Bergþór er í Miðflokknum vegna þess að hann fór á sínum tíma halloka í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð hrökklaðist úr Framsóknarflokknum að eigin tilstuðlan. Forgangsmál þeirra tveggja í stjórnmálum er að ná sér niðri á fyrrum samherjum.

Í atkvæðagreiðslu um tillögu Bergþórs hoppuðu þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra: Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Samfylkingarinnar á vagninn með honum. Í málflutningi þeirra var enginn sameiginlegur þráður annar en sá að koma höggi á ríkisstjórnina, þeir eru með og á móti hvalveiðum, þeim er sama um stjórnsýsluna, þeir vilja hins vegar allir að ríkisstjórnin hverfi.

Það er einkennilegt að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sjái ekki í gegnum þennan málflutning og ljái honum að minnsta kosti stuðning í orði með því að tala illa um samstarfsfólk sitt í stjórnarliðinu.

Fyrir nokkrum árum eyðilögðu alþingismenn landsdómsmeðferðina til að kalla ráðherra til ábyrgðar. Enginn talar lengur um hana. Tillögur um vantraust í tíma og ótíma eyðileggja einnig þá leið til þinglegs aðhalds. Nú er meira segja talað utan þings á þann veg að aðhald þingnefnda gagnvart ráðherrum og framkvæmdavaldinu sé einskis virði.

Fyrir kosningaþingið næsta vetur ætti stjórnarandstaðan að íhuga eigin stöðu vilji hún hætta að lúta leiðsögn miðflokksmanna og pírata sem magna aðeins vandræði í stað þess að boða lausnir.