10.7.2019 9:56

Misheppnaða Tsipras-tilraunin

Tsipras breytti engu fyrir Grikki gagnvart þríeykinu og hann gerði ekkert heldur til að breyta innviðum grísku stjórnsýslunnar og draga úr sóuninni sem þar er.

Vinstrisinnaði popúlistinn Alexis Tsipras komst til valda í Grikklandi árið 2015 með það á vörunum að hann ætlaði að sýna Brusselmönnum, seðlabanka evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í tvo heimana. Hann efndi til þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá stuðning almennings við stefnu sína.

Tsipras gerði hins vegar ekkert með stuðninginn sem hann hlaut í atkvæðagreiðslunni. Hann sneri einfaldlega við blaðinu að henni lokinni. Skilyrðin sem hann sætti sig við frá þríeykinu sem setti Grikkjum afarkosti voru jafnvel verri en fyrri stjórnendur Grikklands höfðu látið yfir þjóðina ganga.

Þegar hann lætur af störfum sem forsætisráðherra og felur völdin í hendurnar á Kyriakos Mitostakis, leiðtoga mið-hægriflokksins Nýs lýðræðis, er litið á Tsipras sem svo mikinn ESB-sinna að hann mundi sóma sér í framkvæmdastjórn ESB. Lof er borið á hann bæði í Brussel og Washington.

Merlin_157642782_3127f874-369d-4d5b-9e0e-1837285af3e9-superJumboAlexis Tsipras yfirgefur forsætisráðuneytið mánudaginn 8. júlí eftir að hafa tapað í þingkosningunum daginn áður. Að baki honum er Kyriakos Mitostakis, viðtakandi forsætisráðherra.

Alexis Tsipras breytti róttæku vinstrihreyfingunni Syriza í hefðbundinn mið-vinstriflokk. Nú er flokkurinn litinn sömu augum og PASOK, jafnaðarmannaflokkurinn, á sínum tíma. PASOK hefur hlotið sömu örlög og jafnaðarmannaflokkar margra Evrópulanda, að hætta að skipta máli. Þýskir jafnaðarmenn stefna meira að segja í þá átt núna. Í Frakklandi mega sósíalistar sín einskis.

Í fréttaskýringu The New York Times um kosningaúrslitin í Grikklandi segir að félagar í popúliskum uppnámsflokkum í Evrópu geti lært margt af „Tsipras-tilrauninni“ . Á Ítalíu megi til dæmis sjá marga býsnast yfir Evrópusambandinu og reglum þess utan stjórnar en nái þeir völdum breytist tónninn og uppreisnarandinn dvíni.

Ýmsir líta á Tsipras sem svikara. Í þeim hópi er Zoe Konstantopoulou, gagnmenntaður lögfræðingur, sem sat á þingi en sagði skilið við Tspiras árið 2015 vegna sinnaskipta hans. Hún var gestur Ögmundar Jónassonar hér í febrúar 2018. Þegar hún var spurð um kúvendingu Tsipras og stuðning hans við lánardrottnana þrátt fyrir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar svaraði hún með einu orði: Völd. Til að halda völdum hefði hann orðið að fara að vilja þríeykisins. Með því að ganga að kröfum þríeykisins hefðu grískir ráðamenn ritað undir dauðadóm yfir eigin þjóð. Honum yrði að rifta.

Tsipras breytti engu fyrir Grikki gagnvart þríeykinu og hann gerði ekkert heldur til að breyta innviðum grísku stjórnsýslunnar og draga úr sóuninni sem þar er. Atvinnuleysi er nú um 18% í Grikklandi og 40% meðal ungs fólks. Vinstri tilraunin sem kennd er við Tsipras rann einfaldlega út í sandinn. Grikkir binda nú vonir við að jarðbundnir mið-hægrimenn sem vinstrisinnar hafa útmálað sem höfunda hrunsins á Grikklandi leiði þá til bjartari framtíðar en Tsipras og félögum tókst.