23.5.2021 9:15

Misbeiting verkalýðsvalds

Skipi forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar sér í andstöðu við eitthvert fyrirtæki sitja þeir ekki á friðarstóli heldur eru miklar líkur eru á að þeim verði svarað.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur stofnað til átaka við nýtt flugfélag, Play, og hvatt félagsmenn sína til að eiga ekki viðskipti við félagið. Það hafi samið við flugliða á annan veg en þóknast Drífu Snædal, forseta ASÍ. Fyrir nokkru beitti formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), Ragnar Þór Ingólfsson, sér gegn Icelandair og sá til þess að Lífeyrissjóður verslunarmanna keypti ekki hlutabréf í félaginu, þau hafa síðan reynst góð fjárfesting þótt Ragnar Þór vonaði annað. Hann reyndi einnig að hindra að lífeyrissjóðurinn festi fé í Síldarvinnslunni á Neskaupstað.

Nýkjörinn formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, hafði varla tekið við embætti þegar hún kallaði stjórnendur Morgunblaðsins árangurslaust á teppið vegna auglýsinga útgerðarfélagsins Samherja á mbl.is. Vildi formaðurinn stöðva birtingu auglýsingarinnar. Stofnaði Sigríður Dögg til opinbers ágreinings við starfsmenn Morgunblaðsins. Nú er upplýst að þeir sem gæta hagsmuna Samherja í ágreiningi félagsins við fréttstofu ríkisútvarpsins vildu ekki að Sigríður Dögg yrði formaður blaðamannafélagsins.

Play_Island_Airbus_A320Skipi forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar sér í andstöðu við eitthvert fyrirtæki sitja þeir ekki á friðarstóli heldur eru miklar líkur eru á að þeim verði svarað.

Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, lýsir í grein í Morgunblaðinu 22. maí andstöðu við að ASÍ reyni „að knésetja nýtt flugfélag“. Forystu ASÍ skipti engu að starfsfólk flugfélagsins „hafi enga aðkomu·“ að ASÍ, stéttarfélag starfsmanna virðist hafa samið betur en ASÍ fyrir sitt fólk við aðra, að nýja félagið bjóði samkeppni í flugi og stuðli þannig að lágum fargjöldum.

Þá segir Hildur Sverrisdóttir:

„Tilefni þessa pistils er samt annað og alvarlegra. Í atlögu sinni að því að kæfa flugfélagið í fæðingu í stað þess að ræða um hlutina af einhverri yfirvegun hvetur sambandið lífeyrissjóði til að sniðganga félagið. Þetta er nýjasta tilraunin, en aðeins ein af mörgum, til að beita eftirlaunum fólks í pólitískum tilgangi.“

Og hún segir réttilega:

„Fólk sem hefur skilað sínu á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að lífeyrir þess sé notaður sem skiptimynt í valdabaráttu stéttarfélaga. Fæstir eftirlaunaþegar eru það vel stæðir að þeir láti sér slíkt í léttu rúmi liggja að sér forspurðum. Það er alveg ástæða til að ítreka þetta nú í aðdraganda kosninga þegar forystufólk stórra verkalýðsfélaga og flokks sem vill endurreisa sósíalismann talar sífellt um lífeyri eftirlaunaþega líkt og um sé að ræða herfang sem beita eigi sem vopni í byltingu alþýðunnar. Ég held nefnilega að alþýðan vilji bara eiga eftirlaunin sín sjálf.“

Hildur Sverrisdóttir hreyfir þarna stóru hagsmunamáli sem ekki má liggja í þagnargildi. Eignir tugþúsunda eru í húfi. Þegar verkalýðsforingjar og sófa-sósíalistar hóta fyrirtækjum með fjármunum annarra er farið á svig við allar leikreglur hvað sem málsvörum vinstri vælu-stjórnmálanna finnst.