26.7.2019 10:01

Minnisvarði um Okjökul vekur heimsathygli

„Þetta verður fyrsti minnisvarðinn í heimi um jökul sem varð loftslagsbreytingum að bráð.“

Fréttastofan Reuters og fréttastöðin Euronews birta í dag (26. júlí) frétt um að í næsta mánuði verði reistur minnisvarði um Okjökul sem sé fyrstur jökla til að hverfa á Íslandi. Þá segir í fréttinni að jöklafræðingar búist við hvarfi allra jöklanna 400 á Íslandi á næstu 200 árum, þar á meðal stærsta jökulsins, Vatnajökuls.

Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur hjá Orkustofnun, svaraði 22. október 2014 spurningu á vísindavef Háskóla Íslands hvers vegna Ok væri ekki lengur jökull. Í svarinu sagði:

„Okjökull var fyrir rúmri öld 15 ferkílómetra, meira en 50 m þykkur, kúptur jökull. Þá hneig hann fram undan þunga sínum vegna þess að ís verður seigfljótandi við að verða svona þykkur og þungur. Núna er ísinn aðeins um 15 m þykkur og flatarmálið langt innan við 1 ferkílómetri. Við það að missa þykkt sína og þunga hættir ísinn að vera seigfljótandi og hættir því að skríða og þar með er hann hættur að vera jökull.“

Ok_2014_litil_141014Ok árið 2014 - mynd af vísindavef HÍ.

Nú fimm árum síðar verður minnisvarði reistur um jökulinn með áletrun þar sem segir:

„Búist er við því að á næstu 200 árum fari allir jöklar þessa sömu leið. Með þessum minnisvarða viðurkennum við vitneskju okkar um það sem er að gerast og til hvaða ráða þarf að grípa. Þú einn veist hvort við gripum til þeirra.“

Sagt er frá því að mannfræðingarnir Cymene Howe og Dominic Boyer við Rice-háskóla í Houston hafi árið 2018 gert heimildarmyndina Not Ok um bráðnandi jökulinn.

Rætt er við Howe í fréttinni sem segir:

„Þetta verður fyrsti minnisvarðinn í heimi um jökul sem varð loftslagsbreytingum að bráð. Með því að minnast brotthvarfs Oks vonum við að okkur takist að vekja athygli á hverju jörðin tapar með dauða jöklanna. Þessar ísbreiður geyma mesta magn jarðar af fersku vatni og þar er einnig að finna loftslagssöguna í frysti. Þá eru þeir einnig oft mikilvæg menningarleg tákn.“

Howe vitnar í íslenskan starfsfélaga sinn sem hafi sagt:

„Minnisvarðar eru ekki fyrir hina dauðu heldur þá sem lifa. Með þessum minnisvarða vilja þeir árétta að það kemur í hlut okkar sem lifum til að bregðast við hraðri bráðnun jökla og viðvarandi áhrifum loftslagsbreytinganna. Það er þegar orðið of seint fyrir Ok.“

Þetta er merkilegt framtak. Líklegt er að nú á tímum áhuga á loftslagsbreytingum og heitstrenginga í baráttunni gegn þeim verði minnisvarðinn um Ok einskonar pílagrímasteinn.

Samhliða því sem hann er afhjúpaður þarf að gera ráðstafanir til að ferðamenn eigi greiða leið að honum án náttúruspjalla.

Fréttin frá Reuters og í Euronews bendir til að hér sé um framtak að ræða sem vekur athygli langt út fyrir landsteinana.

eginmál