17.2.2024 10:42

Minningin um Navalníj hræðir Pútin

Aðfaranótt laugardagsins 17. febrúar voru hettuklæddir menn sendir á vettvang og sópuðu þeir blómunum á brott og öllu öðru sem minnti á Navalníj, ljósmyndum og litlum spjöldum með sorgar- og baráttukveðjum.

Á meðan lögfræðingurinn Aleksei Navalníj (47 ára) var á lífi beitti Vladimír Pútin Rússlandsforseti öllum ráðum til að þagga niður í honum.Var honum meira að segja byrlað eitur árið 2020. Fyrir snarræði flugmanns sem nauðlenti farþegavél á leið frá Síberíu til Moskvu í Omsk komst Navalníj undir læknishendur og þaðan til Berlínar að kröfu Angelu Merkel kanslara.

Navalníj fékk einu sinni að bjóða sig fram, árið 2013 í borgarstjórakosningum í Moskvu. Þá fékk hann 27% atkvæða samkvæmt opinberum tölum sem höfðu verið meðhöndlaðar af sérfræðingum stjórnvalda í kosningasvindli. Fylgi hans var talið enn meira þótt hann fengi ekki að láta sjá sig á opinberum sjónvarpsrásum.

Eftir lækningu í Þýskalandi sneri Navalníj aftur til Rússlands í janúar 2021. Farþegavélinni var snúið frá áætlunarvellinum í Moskvu til að lauma Navalníj í land fram hjá mannfjöldanum sem beið komu hans. Hann var handtekinn á flugvellinum í beinni útsendingu. Hann afplánaði 19 ára fangelsisvist á norðurhjara veraldar þegar hann lést. Opinbera skýringin er að hann hafi fengið aðsvif á göngu í fangelsisgarðinum og dáið.

57ec90ea-35ba-41b9-9b67-5a05c098f53fAlexei Navalníj minnst við Solovetskíj-steininn í Moskvu.

Julia, eiginkona Navalníjs, var í München morguninn 16. febrúar þegar fréttin um dauða hans barst. Hún gekk upp á svið öryggisráðstefnunnar sem þar er um þessa helgi og ávarpaði ráðstefnugesti og alla heimsbyggðina í beinni útsendingu. Boðskapur hennar var skýr, málstaður Navalníjs lifir og baráttu gegn Pútin verður haldið áfram í hans nafni og annarra sem sættu harðræði Pútins. Varast bæri að trúa einu orði sem kæmi frá Kreml.

Síðdegis föstudaginn 16. febrúar mynduðust víða raðir fólks við minnisvarða um illvirki kommúnista í Rússlandi. Í Moskvu voru blóm lögð á Solovetskíj-steininn á Lubjanka-torgi, skammt frá Lubjanka-byggingunni, höfuðstöðum rússnesku öryggislögreglunnar frá árinu 1918 – nú sitja stjórnendur FSB þar. Steinninn er frá Solovetskíj-eyju við Hvítahaf þar sem fyrstu sovésku fangabúðirnar voru reistar.

Aðfaranótt laugardagsins 17. febrúar voru hettuklæddir menn sendir á vettvang og sópuðu þeir blómunum á brott og öllu öðru sem minnti á Navalníj, ljósmyndum og litlum spjöldum með sorgar- og baráttukveðjum.

Pútín snýst nú gegn minningunni um Navalníj.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti flutti ræðu á ráðstefnunni í München laugardaginn 17. febrúar. Eftir morðið á Navalníj væri „fráleitt“ að líta á Pútin sem lögmætan þjóðhöfðingja Rússlands, hann væri óþokki sem héldi völdum í krafti spillingar og ofbeldis.

Zelenskíj sakaði Pútin um að vilja senda heiminum „skýr skilaboð“ á upphafsdegi öryggisráðstefnunnar í München. Það yrði að standa gegn honum, hann yrði að tapa en ekki heimskerfi sem reist væri á virðingu fyrir alþjóðalögum og reglum.

Vladimir Pútin flutti ræðu á öryggisráðstefnunni í München árið 2007 og sagðist ekki sætta sig við ofurstöðu Bandaríkjanna í heiminum. Er hún nú talin upphaf þess sem heimurinn hefur kynnst síðan af hálfu Pútins innan og utan Rússlands.