6.7.2025 10:56

Minningarstund í Skálholtsdómkirkju

Minningartónleikar um Helgu Ingólfsdóttur á 50 ára afmæli sumartónleikanna – og farið að gröf Bodil Begtrup, sendiherra Dana.

Þess er minnst nú í sumar að 50 ár eru liðin frá því að reglulegir sumartónleikar hófust í Skálholtsdómkirkju. Helga Ingólfsdóttir (1942-2009) brautryðjandi í flutningi barokktónlistar á Íslandi, fyrst Íslendinga til að nema semballeik, var frumkvöðull að sumartónleikunum og stjórnaði þeim í 30 ár.

Laugardaginn 5. júli var Helgu minnst með sembaltónleikum í Skálholtskirkju þar sem Frakkinn Jean Rondeau (f. 1991) flutti verk eftir frönsk tónskáld á sembal Helgu sem hljómaði einstaklega vel í kirkjunni við mikið lof margra áheyrenda. 

IMG_2355Það fer ekki mikið fyrir legsteini Bodil Begtrup þar sem hann kúrir við suðausturhorn Skálholtsdómkirkju.

IMG_2351Legsteinninn.

Eins og áður lagði ég leið mína að legsteini Bodil Begtrup, sendiherra Dana á Íslandi 1949 til 1956. Hún er mér ógleymanleg frá barnæsku og í hennar tíð var mér í fyrsta sinn boðið til fagnaðar í húsi danska sendiráðsins við Hverfisgötu. Það fer ekki mikið fyrir steininum þar sem hann kúrir í grasi við suðausturhorn dómkirkjunnar og líklega vita fáir söguna að baki honum. Hér skal hún reifuð:

Bodil Gertrud Begtrup (1903–1987) var áhrifamikil dönsk kvenréttindakona, stjórnmálafræðingur og diplómat. Hún lauk námi árið 1929 og tók snemma þátt í kvennabaráttu og alþjóðlegu samstarfi, meðal annars með Þjóðabandalaginu í Genf. Hún varð síðar formaður Danska kvennaráðsins og vann ötullega að bættri stöðu kvenna í Danmörku.

Eftir síðari heimsstyrjöld varð hún fulltrúi danskra kvenna hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem hún leiddi m.a. undirbúningsvinnu fyrir jafnréttisstarf SÞ og sat í nefndinni sem samdi Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Á árunum 1949–1973 gegndi hún sendiherraembætti í Reykjavík, Strassborg, Bern og Lissabon. Þegar hún starfaði hér varð Bodil fyrsta danska konan sem fékk sendiherratign. Hún var  virkur þátttakandi í undirbúningi heimsráðstefnu SÞ um málefni kvenna.

Bodil fæddist í Nyborg 1903 og lést í Kaupmannahöfn 12. desember 1987. Hún var grafin í Skálholti undir lok janúar 1988.

IMG_2359Altaristafla Nínu Tryggvadóttur er einstakt listaverk.

Morgunblaðið birti 27. janúar minningarræðu sr. Sigurbjörns Einarssonar biskups í Skálholtskirkju um Bodil Begtrup.

Þau Sigurbjörn hittust skömmu eftir að Bodil varð sendiherra hér á hátíð „í því húsi, sem þá var Skálholtskirkja, lítið hús og hrörlegt, en vér vorum að byrja að halda hér árlega hátíð til þess að minna á, hvað Skálholt var og hvað það átti að verða. Það komu ekki margir hingað þennan óveðursdag, en samt fleiri en rúmuðust í kirkjunni. Og um það bil sem messa var að hefjast opnuðust dyrnar og inn gekk sendiherra Dana á Íslandi, Bodil Begtrup, þá nýlega komin hingað til lands. Það kom í minn hlut að leiða hana til sætis, reyndar hafði ég ekki annað sæti að bjóða en mitt,“ sagði sr. Sigurbjörn í ræðunni og einnig:

„Og sú vinátta, sem hún batt við Skálholt, var fölskvalaus og traust. Hér kaus hún sér legstað. Fágætt mun það vera, að sendiherra, sem um fárra ára skeið dvelst sem fulltrúi þjóðar sinnar í framandi landi, verði svo bundinn moldum og lífi þess lands. Nær er mér að halda, að það sé einsdæmi. Öruggt er það, að slíkt hefur ekki gerst í sögu Íslands fyrr.“

Sr. Sigurbjörn sagði frá því að þegar Bodil var kvödd hinstu kveðju í Kaupmannahöfn hafi að hennar ósk verið sunginn sálmurinn Allt eins og blómstrið eina sem hefði í Skálholti helgað banabeð og sefað helstríð og harma í fyrsta sinn.

Blessuð sé minning þeirra sem hér er getið. Þau gáfu öll Skálholti mikið og eiga skilið verðugan sess í sögu staðarins.

IMG_2341Skálholtsdómkirkja úr austri, 5. júlí 2025.