Minna sund á Hólmavík og í Laugardal
Það er ekki orkuskortur sem skerðir lífsgæði þeirra sem sækja Laugardalslaugina í Reykjavík eins og þeirra sem búa nú við minni sundþjónustu á Hólmavík.
Í Morgunblaðinu í dag (24. apríl) segir frá því að lág staða í lónum Landsvirkjunar leiði til þess að Orkubú Vestfjarða (OV) tapi 5 milljónum á dag vegna skerðingar á landsvirkjunarorku. Skerðingar til OV hófust 18. janúar og ekki er vitað hvenær þeim lýkur. Stefnir í um 600 m. kr. tekjutap hjá OV vegna þessa.
Þá er sagt frá því að á Hólmavík sé 25 metra sundlaug, busllaug, tveir heitir pottar og gufubað. Kynda þurfi með dísilolíu og aðeins opið í pott og gufu – allt annað sé lokað vegna raforkuskerðinga. Nú þegar hafi 40 þúsund lítrar af dísilolíu verið notaðir fyrir starfsemi sundlaugarinnar. Lokunin er sögð bitna mest á skólakrökkum sem sé ekið frá Hólmavík til sundnáms tæplega 30 kílómetra leið í sundlaugina Laugarhól í Bjarnarfirði.
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, segir:
„Hér í Strandabyggð eru virkjunarkostir eins og Kvíslatunguvirkjun, sem er sem betur fer á hreyfingu en því miður er stopp í Hvalárvirkjun.“
Tafir á virkjun Hvalár hafa leitt til þess að vegið er að mannlífi í Strandabyggð svo ekki sé minnst á Árneshrepp þar sem virkjunin á að rísa.
Í ársbyrjun 2024 var staða áforma um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði sögð sú að næstu tvö ár mundu einkennast af skipulagsmálum og umhverfismatsmálum fyrir tengingu Landsnets.
VesturVerk, sem er er í eigu HS Orku (80%) og Glámu fjárfestingar slhf. (20%), ætlar að reisa virkjunina. HS Orka hefur fengið erlenda aðila til að meta framkvæmdir við Hvalárvirkjum með vísan til alþjóðlegs sjálfbærnistaðals fyrir vatnsaflsvirkjanir, Hydropower Sustainability Standard (HSS). Þar verður Hvalárverkefnið metið á víðtækari hátt en gert er í hefðbundnu umhverfismati.
Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku, sagðist vænta þess að framkvæmdaleyfi gæti legið fyrir á árinu 2026. Þá tæki við framkvæmdatími í þrjú og hálft ár við virkjun og tengilögn Landsnets. Virkjunin gæti því tekið til starfa árið 2030.
Líklegt er að enn og aftur verði reynt að leggja steina í götu þessa brýna verkefnis eins og önnur áform um að framleiða hér græna orku.
Frá Hólmavík, júní 2023.
Takmörkuð þjónusta sundlaugarinnar á Hólmavík á rætur í orkuskorti. Hann skerðir lífsgæði í Strandabyggð á margan hátt.
Það er hins vegar ekki orkuskortur sem skerðir lífsgæði þeirra sem sækja Laugardalslaugina í Reykjavík og búa nú við minni þjónustu vegna styttingar á afgreiðslutíma.
Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður laugin til dæmis ekki opnuð fyrr en kl. 11.00 í stað 08.00 eins áður hefur verið. Þetta er gert vegna fjárskorts Reykjavíkurborgar sem sker niður launakostnað vaktavinnufólks.
Samhliða því sem þetta er gert rita fastagestir Sundhallarinnar í Reykjavík undir ákall til borgaryfirvalda um að eyðileggja ekki innilaugina þar og meistaraverk Guðjóns Samúelssonar.
Fastagestir Laugaradalslaugarinnar sjá að hnignun hennar birtist í ýmsum myndum. Sé Reykjavíkurborg um megn að reka þessa starfsemi á hún að semja við einkaaðila um að veita viðunandi þjónustu.