18.2.2025 10:23

Mileis fordæmi fyrir Kristrúnu

Það styttist í að hagsýnis- og hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar skili tillögum sínum. Vonandi ber hún gæfu til að líta á árangurinn í Argentínu. Kristrún og félagar hefðu gott af að læra af honum.

Undir árslok 2023 var hagfræðingurinn Javier Mileis kjörinn forseti Argentínu. Þótti kjör hans með nokkrum ólíkindum vegna róttækrar hægri stefnu hans og fyrirheita um að bjarga efnahag þjóðarinnar. Árangrinum sem Mileis hefur náð er líkt við efnahagslegt kraftaverk.

Mileis lagði ríka áherslu á hagsýni í opinberum rekstri og innan stjórnsýslunnar. Nú hefur hann rekið rúmlega 35.000 opinbera starfsmenn, lagt niður níu af 18 ráðuneytum landsins og fækkað opinberum stjórnarskrifstofum úr 106 í 54.

Í grein sem birtist á dönsku vefsíðunni altinget.dk segir Rud Pedersen, fyrrv. pólitískur ráðgjafi Liberal Alliance, að auk aðfararinnar að bákninu í Argentínu hafi þúsundum verktakaráðnum skriffinnum verið sagt upp, ellilífeyrir sé ekki lengur verðtryggður, opinberu eftirliti gegn hækkunum á húsaleigu hafi verið hætt og fallið frá niðurgreiðslum á ýmsum neysluvörum.

Screenshot-2025-02-18-at-10.21.00Þegar Javier Mileis bauð sig fram til forseta Argentínu sveiflaði hann keðjusög gegn bákninu.

Leifursókn Mileis gegn opinberri sóun hafi skilað árangri:

Í fyrsta skipti í 14 ár er afgangur á fjárlögum, verðbólga hrapar og vísitala hlutafjár í Argentínu hækkaði um rúmlega 170% á árinu 2024.

Rud Pedersen segir að vissulega séu slík efnahagsleg umskipti ekki sársaukalaus en það sé gagnlegt fyrir Dani að fylgjast með aðgerðum Mileis og áhrifum þeirra, þar komi í ljós að unnt sé að stemma stigu við stöðugri fjölgun opinberra starfsmanna, sem oft sýnist óstöðvandi, og stöðva setningu laga sem sífellt krefjist meiri útgjalda.

Í greininni segir að regluverkið hafi næstum þrefaldast í Danmörku frá árinu 1989. Þótt ekki sé litið lengra til baka en til 2017 megi sjá að starfsmönnum í fullri stöðu í stjórnsýslunni hafi fjölgað um 16.000 til ársins í ár. Það sé hins vegar spurning hvort Dönum finnist opinber þjónusta hafa batnað í takti við þessa miklu fjölgun starfsmanna.

Rud Pedersen segir að óhjákvæmilegt sé að skylda stjórnmálamenn á ótvíræðan hátt til að minnka báknið. Árið 2001 hafi sú breyting verið gerð í kanadíska fylkinu British Columbia að stjórnmálamenn urðu að afnema tvær gildandi reglur ef þeir settu eina nýja.

Við þetta hafi regluverkið minnkað um tæplega 40% á þremur árum og rannsóknir sýni að hagvöxtur varð næstu árin meiri í þessu fylki en í öðrum í Kanada

Niðurstaða greinarinnar á altinget.dk er að vilji Danir verja hag- og velsæld sína verði þeir að gera atlögu að bákninu. Spurningin sé ekki hvort læra megi af kapítalískri leiftursókn Mileis heldur hvort við þorum að nýta okkur hana áður en báknið og skjalahaugarnir hafi náð því umfangi að ekkert dugi nema keðjusögin.

Við sjáum hvernig komið er fyrir flugöryggi í Vatnsmýrinni vegna aðgerðarleysis vinstra báknsins í Reykjavík. Þar er þörf á keðjusögum í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Það styttist í að hagsýnis- og hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar skili tillögum sínum. Vonandi ber hún gæfu til að líta á árangurinn í Argentínu. Kristrún og félagar hefðu gott af að læra af honum.