17.10.2018 10:35

Mikilvægi umræðna um varnarmál

Áhugaleysi fjölmiðla á breytingum í öryggisumhverfi okkar Íslendinga verður örugglega til þess fyrr en síðar að þar verða rekin upp um ramakvein um að eitthvað hafi gerst með leynd.

Þeir sem ekki komu á fund Varðbergs í gær (16. október) með James G. Foggo aðmíral og stjórnanda NATO-varnaræfingarinnar Trident Juncture 2018 geta séð hann og heyrt hér .

Norræna húsið var þéttsetið og á vefsíðu Varðbergs, www.vardberg.is birtist stutt frásögn af því sem fram kom í fyrirlestri aðmírálsins. Áhugaleysi fjölmiðla á breytingum í öryggisumhverfi okkar Íslendinga verður örugglega til þess fyrr en síðar að þar verða rekin upp um ramakvein um að eitthvað hafi gerst með leynd. Reynslan sýnir að ómögulegt er að segja fyrir um hvenær eitthvað sem lengi hefur verið á döfinni verður hér að fréttaefni, stundum á þann veg að flæðir út fyrir öll mörk vegna þekkingarleysis. Þá er gjarnan valin einföld leið upphrópana í stað þess að skoða mál ofan í kjölinn.

45367365201_a9e7dd910c_bÞessi mynd frá bandaríska flotanum var tekin um borð í varðskipinu Þór á ytri höfninni í Reykjavík 16. október  þegar James G. Foggo minntist þeirra sem týndu lífi á sjó í síðari heimsstyrjöldinni.

Aðmíráll James G. Foggo birti í júní 2016 grein í blaði bandarísku flotastofnunarinnar um það sem hann kallaði fjórðu orrustuna um Atlantshafið, það er eftir fyrri og síðari heimsstyrjaldirnar og kalda stríðið. Hann færði góð rök fyrir skoðun sinni í fyrirlestrinum í gær auk þess að lýsa umfangi og tilgangi Trident-æfingarinnar.

Sama ár og Foggo birti grein sína efndi Varðberg til málþinga með þátttöku erlendra fyrirlesara í tilefni af því að 10 ár voru liðin frá brottför varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Öllum sem sátu þessi málþing varð ljóst að verulegar breytingar í öryggismálum á N-Atlantshafi voru á döfinni.

Hvað sem líður því sem sagt er frá í fréttum er óhjákvæmilegt fyrir stjórnmálamenn og embættismenn að átta sig á stöðunni. Spurning er hvert þeir geta leitað. Á níunda áratugnum starfaði öryggismálanefnd á vegum forsætisráðuneytisins. Athyglisvert er að á fundinum í gær lögðu þrír sendiherrar sem á sínum tíma stunduðu rannsóknir undir merkjum öryggismálanefndar, Gunnar Gunnarsson, Þórður Ægir Óskarsson og Albert Jónsson, spurningar fyrir aðmírálinn.

Nú er starfandi Þjóðaröryggisráð og meðal hlutverka þess er að ýta undir rannsóknir og miðlun fræðilegra upplýsinga um öryggismál. Á níunda áratugnum deildu stjórnmálaflokkarnir um aðildina að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Störfin í öryggismálanefnd tóku mið af þessu og skýrslur nefndarinnar snerust um álitaefni sem settu svip á stjórnmálaumræðurnar.

Nú er aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin hluti þjóðaröryggisstefnunnar. Þótt ekki sé deilt um málið á sama hátt og áður er óhjákvæmilegt að leggja rækt við samskonar þekkingaröflun og opinbera miðlun í öryggis- og varnarmálum og gert var á níunda áratugnum með birtingu greina og ritverka. Hvar er fræðastofnunin eða hugveitan til að sinna þessu mikilvæga hlutverki?