Mikilvægi norrænu stoðarinnar
Norræn samvinna er nú ótvírætt þriðja stoðin í öryggismálum okkar Íslendinga við hlið varnarsamningsins við Bandaríkin og aðildarinnar að NATO.
Í Morgunblaðinu í dag (1. mars) er grein sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og formaður Hægriflokksins, Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins í Danmörku, Ulf Kristersson, formaður Moderaterna í Svíþjóð. og Petteri Orpo formaður Kokoomus í Finnlandi, skrifa til birtingar í fjölmiðlum hvarvetna á Norðurlöndunum.
Þau kynna sig til sögunnar sem leiðtoga „hófsamra hægriflokka á Norðurlöndum“ og vilja með grein sinni árétta mikilvægi norrænnar samvinnu og gildi hennar við þjóðirnar fimm sem halda muni „sterkri stöðu sinni í alþjóðasamkeppni þegar hjólin fara að snúast á ný eftir að heimsfaraldrinum lýkur“. Þá verði þær vel í stakk búnar „til að bregðast sameiginlega við nýjum áskorunum“. Þetta er mikilvæg yfirlýsing í ljósi spennunnar sem skapast hefur vegna lokunar landamæra eða ferðatakmarkana milli landanna vegna faraldursins. „Á næstu árum verður mikilvægara en nokkru sinni að setja norrænt samstarf í algjöran forgang,“ segja þau og benda á að samstarfið sé ekki aðeins mikilvægt fyrir okkur sem í löndunum búum heldur líti Evrópubúar og umheimurinn allur til okkar og samstarfs landanna á ýmsum sviðum. Þau nefna þrjár stoðir til að hleypa nýju lífi í norræna samvinnu.
1. Norrænt samstarf um atvinnusköpun og hagvöxt.
2. Norðurlöndin leiðandi í grænum umskiptum.
3. Norðurlönd sem veita öryggi.
Hér skal staldrað við þriðja liðinn. Þar er vikið að nauðsyn samhæfingar um neyðarviðbúnað og birgðir til að takast á við áföll á borð við heimsfaraldurinn. Staðreynd er að fyrir utan Finna höfðu norrænu þjóðirnar horfið frá framkvæmd hagvarna á borð við þær sem voru fyrir hrun Sovétríkjanna. Svíar lögðu til dæmis allsherjarvarnir (totalforsvar) sínar niður með öllu. Þarna boða flokksleiðtogarnir að huga skuli að þessum öryggisþætti að nýju og í samvinnu þjóðanna.
Frá vinstri: Petteri Orpo Finnlandi, Ulf Kristersson Svíþjóð, Bjarni Benediktsson, Erna Solberg Noregi og Søren Pape Poulsen Danmörku.
Mestu þáttaskil í norrænu samstarfi á undanförnum árum er sameiginlegt átak í varnarmálum innan ramma NORDEFCO-samstarfsins. Þessi breyting er enn áréttuð þegar formenn öflugra stjórnmálaflokka í Svíþjóð og Finnlandi segja:
„Hlutverk og viðvera NATO í okkar hluta álfunnar er mikilvægasta skrefið til að tryggja frið, stöðugleika og velmegun í löndunum. Samstarf um mál sem varða fjölþátta- og netógnir þarf að dýpka.“
Greinin staðfestir enn að ólík þátttaka norrænu þjóðanna í ESB annars vegar og NATO hins vegar veikir ekki samstarf þeirra heldur gefur þeim færi á að nálgast viðfangsefni líðandi stundar á öflugri hátt en ella væri.
Með nýrri stjórn og forystu í Bandaríkjunum sem stefnir að virkri bandarískri þátttöku í alþjóðastofnunum í samvinnu við frjálslynd lýðræðisríki gefst norrænum stjórnmálamönnum betra tækifæri en undanfarin ár til að vinna að hugsjónum réttarríkisins, lýðræðis og mannréttinda.
Norræn samvinna er nú ótvírætt þriðja stoðin í öryggismálum okkar Íslendinga við hlið varnarsamningsins við Bandaríkin og aðildarinnar að NATO.