25.3.2017 17:47

Mikilvægi EES-samningsins - afmæli ESB

Talsmenn ESB-aðildar gerðu lítið úr gildi EES-samningsins. Meðal þeirra var Jón Steindór Valdimarsson, núv. þingmaður Viðreisnar. Hann hefur skipt um skoðun á gildi EES eins og hann sagði í ræðu á alþingi miðvikudaginn 22. mars.

Í Morgunblaðinu í gær birti ég grein um mikilvægi EES-samningsins og aðildar Íslands að honum, greinina má lesa hér. Þar segir meðal annars að vegna draumanna um aðild að ESB hafi ekki verið lögð nægileg rækt við samninginn. Talsmenn ESB-aðildar gerðu raunar lítið úr gildi samningsins. Meðal þeirra var Jón Steindór Valdimarsson, núv. þingmaður Viðreisnar. Hann hefur skipt um skoðun á gildi EES því að hann sagði í ræðu á alþingi miðvikudaginn 22. mars:

„Samningurinn um EES, þ.e. EES-samningurinn, er langmikilvægasti viðskipta- og samstarfssamningur okkar við önnur ríki. Með honum tengjumst við Evrópusambandinu sterkum böndum ásamt Noregi og Liechtenstein. Það er afar brýnt fyrir hagsmuni okkar að rækta þann samning og sinna af alúð. Sennilega hefur það aldrei verið jafn aðkallandi og einmitt um þessar mundir. Nægir að benda á þróunina í Bandaríkjunum með nýjum forseta og það að Bretland mun hefja viðræður um útgöngu sína úr Evrópusambandinu á næstu mánuðum.“

Það eru ánægjuleg sinnaskipti sem birtast í þessum orðum þingmannsins miðað við neikvæða áróðurinn um EES-samstarfið sem ESB-aðildarsinnar fluttu á svartasta kaflanum í sögu íslenskra utanríkismála.

C4986028fbea4373b88d76e3b8e545c5Fulltrúar 27 ríkja koma saman í Róm í dag til að árétta hollustu sína við Rómarsáttmálann, stofnskrá Evrópusambandsins, sem var undirritaður af fulltrúrum stofnríkjanna sex fyrir réttum 60 árum, 25. mars 1957. Vegna mistaka við sendingu skjala frá Brussel þar sem samið hafði verið um texta sáttmálans voru fulltrúar stofnríkjanna aðeins með fyrstu og lokasíðu sáttmálans í höndunum, meginmálið var enn í Brussel.

Enginn fulltrúi frá Bretlandi er í Róm í dag til að taka þátt í hátíðarhöldunum frekar en enginn breskur fulltrúi var á stofnfundinum. Bretar eru á leið úr ESB og ætlar Theresa May forsætisráðherra að hefja ferlið formlega miðvikudaginn 29. mars.

Í yfirlýsingunni sem ESB-leiðtogarnir rita undir í dag er að finna formlega viðurkenningu á að ríki geta valið hve langt þau ganga á samrunabrautinni undir merkjum sambandsins. Á ensku er þetta kallað multi-speed stefna, það er að allir eru ekki á sama hraða. „Við munum starfa saman, með mismunandi skrefum og krafti sé það nauðsynlegt þótt haldið sé til sömu áttar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Marghraða Evrópa er á alls ekki sama og sundruð Evrópa,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.