23.10.2022 10:36

Mikilvægi EES áréttað

Mat íslenskra ráðamanna er að breyting á skipulagi innan framkvæmdastjórnar ESB hafi styrkt stöðu EES-samningsins gagnvart risavöxnu stjórnkerfi ESB.

Slóvakinn Maroš Šefčovič er einn af varaforsetum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Innan hennar ber hann einnig ábyrgð á mörgum málaflokkum sem snúa jafnt að samstarfi stofnana ESB og stefnumótun til skamms og langs tíma. Hann á að sjá til þess að samstarf þings og framkvæmdastjórnar ESB sé innan umsamins ramma. Að jafnvægi ríki þar á milli er ein meginforsenda góðra stjórnarhátta innan ESB.

Við stofnun þessa starfssviðs innan framkvæmdastjórnarinnar var ákveðið að færa yfirstjórn samskipta ESB við EES-ríkin frá utanríkis- og öryggismálasviði framkvæmdastjórnarinnar til stofnanasviðsins og er Maroš Šefčovič fyrsti framkvæmdastjórinn sem sinnir þessu verkefni innan nýja rammans.

Mat íslenskra ráðamanna er að þessi breyting á skipulagi innan framkvæmdastjórnarinnar hafi styrkt stöðu EES-samningsins gagnvart risavöxnu stjórnkerfi ESB. Nú eru liðin 30 ár frá því að ritað var undir samninginn og hann var mikið hitamál í íslenskum stjórnmálum.

IMG_6037Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, flytur ræðu í hátíðarsal HÍ 20. október 2022.

Ótvíræð hollusta ESB við samninginn kom meðal annars fram á málþingi um framkvæmd hans í hátíðarsal Háskóla Íslands fimmtudaginn 20. október þar sem Maroš Šefčovič og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir voru meðal ræðumanna og þátttakenda í pallborðsumræðum. Í þeim minnti Baldur Þórhallsson prófessor réttilega á nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld nýttu sér sem best og betur en nú er gert öll tækifæri til áhrifa og afskipta af reglum og lögum sem snerta Ísland sem EES-ríki. Liggja fyrir skýrar tillögur í því efni sem ekki hefur verið hrundið í framkvæmd þótt margt horfi til betri vegar á undanförnum árum.

Í Fréttablaðinu laugardaginn 22. október birtist viðtal við Maroš Šefčovič þar sem hann víkur meðal annars að þriðja orkupakkanum. Ákafar deilur um hann hér á landi snerust meðal annars um að ESB krefðist sæstrengs til raforkuflutnings héðan inn í evrópska raforkukerfið. Í viðtalinu segir Maroš Šefčovič að aldrei hafi staðið til að krefja Íslendinga um að lagður yrði sæstrengur með samþykkt þriðja orkupakkans árið 2019. Hann segir:

„Ég veit að það var mikil umræða um þetta hér á Íslandi en hún var byggð á misskilningi. Mér fannst gott að geta skýrt þetta á öllum fundum sem ég hef farið á hér að það hafi aldrei verið ásetningur okkar að krefjast sæstrengs. Við lítum frekar á að Ísland geti tekið þátt í að tryggja orkuöryggi í Evrópu með þekkingu sinni, til dæmis á sviði jarðhita, og ýmsum nýsköpunarverkefnum.“

Í lok samtalsins segir hann um EES-samstarfið: „Við eigum vonandi önnur þrjátíu ár eða lengra fram undan.“ Hann á von á að EES-samstarfið aukist frekar en hitt og í þessari heimsókn hafi meðal annars verið rætt um aukið samstarf á sviði heilbrigðismála. Einnig hafi verið rætt við Norðmenn um þetta.

Með hliðsjón af öllu því neikvæða sem sagt hefur verið um stöðu EES-samingsins gagnvart stjórnkerfi ESB og að þar njóti hans hnignandi athygli koma viðhorfin sem Maroš Šefčovič kynnti þeim þægilega á óvart sem lengi hafa áréttað gildi samningsins fyrir íslenska hagsmuni og nauðsyn þess að leggja rækt við framkvæmd hans.