31.8.2022 9:31

Mikhaíl Gorbatsjov látinn

Nú við andlát Gorbatsjovs stendur leiðtogi Rússlands, Vladimir Pútin, í þeim sporum að ætla að beita hervaldi til að endurheimta land sem Moskvuvaldið tapaði með hruni Sovétríkjanna.

Mikhaíl Gorbatsjov er allur 91 árs að aldri. Hann var síðasti leiðtogi Sovétríkjanna. Mikils metinn utan þeirra, friðarverðlaunahafi Nóbels, en fyrirlitinn heima fyrir sem útfararstjóri Sovétvaldsins og hruns ríkis þess 26. desember 1991.

Gorbatsjov kom tvisvar sinnum til Íslands. Í október 1986 til fundar við Ronald Reagan Bandaríkjaforseta í Höfða og aftur í október 2006 til að minnast fundarins í Höfða.

800px-President_Ronald_Reagan_and_Soviet_General_Secretary_Mikhail_Gorbachev_meet_at_Hofdi_House_during_the_Reykjavik_Summit_IcelandMikhail Gorbatsjov (t.v.) og Ronald Reagan funda í Höfða í október 1986.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra fór í opinbera heimsókn til Moskvu í byrjun mars 1987. Þá hitti hann Gorbatsjov í Kreml. Með hópi blaðamanna beið ég ásamt Gorbatsjov eftir komu Steingríms. Í minningunni lifir mynd af einmana þjóðarleiðtoga sem gekk um gólf í mannauðri skrifstofu sinni.

Steingrímur Hermannsson sagði að Nikolai Ryzhkov, forsætisráðherra Rússlands, hefði á þriggja tíma fundi þeirra greint sér rækilega frá þeim breytingum sem nú væri verið að gera á sovésku þjóðfélagi. Ætlunin væri að auka framleiðni og efla ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og gera sósíalismann virkari. Til þess að þetta tækist þyrfti að glíma við mörg vandamál heima fyrir og auka samvinnu út á við. Efnahagskerfið hefði verið staðnað.

Það var aldrei markmið Gorbatsjovs að Sovétríkin yrðu að engu. Hann ætlaði að endurræsa kerfið með því að opna það en þá blöstu við fúnar stoðirnar og allt varð rústir einar. Hann hafði enga burði til að standa með kommúnistastjórninni í Austur-Þýskalandi og hrun Berlínarmúrsins 9. nóvember 1989 varð sýnilegt og táknrænt upphaf nýrra tíma í heimssögunni.

Nú við andlát Gorbatsjovs stendur leiðtogi Rússlands, Vladimir Pútin, í þeim sporum að ætla að beita hervaldi til að endurheimta land sem Moskvuvaldið tapaði með hruni Sovétríkjanna. Pútin fer fram með ófriði. Hann misreiknaði sig á mætti Rússlands eins og Gorbatsjov gerði.

Mikhaíl Gorbatsjov sýndi vilja til að auka frið og vináttu milli þjóða. Af þeim sökum er hans minnst með virðingu af öllum sem styðja þann málstað.