27.1.2021 9:47

Miðlun nýrra viðmiða

Stóra spurningin er hins vegar hvernig staðið er að miðlun þessara nýju viðmiða og þekkingar um samfélögin öll.

„Sjálfbærni felur í sér jafnvægi milli samfélags, náttúru og efnahags, ég ætla leyfa mér að draga þá ályktun að það ríki almennur samfélagssáttmáli á Íslandi um að við viljum búa í sjálfbæru samfélagi,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, í samtali á vefsíðunni visir.is í dag (27. janúar).

Festa — miðstöð um samfélagsábyrgð eru frjáls félagasamtök með aðsetur í Háskólanum í Reykjavík. Festa var stofnuð árið 2011 af Íslandsbanka, Landsbankanum, Landsvirkjun, Rio Tinto Alcan á Íslandi, Símanum og Össuri. Á vefsíðu miðstöðvarinnar segir að yfir 130 framúrskarandi fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir séu í Festu. Þar sé því um að ræða „ómetanlegt tengslanet leiðandi aðila á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni“. Festa hafi „því bein áhrif á samkeppnishæfni og samfélagsábyrgð í íslensku samfélagi“.

BergmÍ viðtalinu við Hrund kemur fram að fimmtudaginn 28. janúar efni Festa til ráðstefnu til að fagna 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni hafi verið gerð könnun meðal stofnfyrirtækja miðstöðvarinnar og spurt: „Ef þú ættir að gefa drauma-sjálfbæra-samfélaginu 10 í einkunn, hvaða einkunn fær Ísland í dag og hvað þarf að gerast á næstu 10 árum til að það fái 10 í einkunn?“ Ísland fékk ekki nema 5,5 í þessu prófi, „rétt náði“ að mati Hrundar sem segir:

„Þær ákvarðanir sem við erum að taka í dag munu hafa áhrif inn í framtíðina. Leiðtogar á öllum sviðum, í viðskiptum, opinberum geira og í þriðja geiranum, standa á krossgötum. Ríkisrekstur, jafnt sem einkarekstur þarf að verða sjálfbærari. En Covid-19 hefur líka sannarlega opnað á ný og uppbyggileg tækifæri, hraðað innleiðingu samskiptatækni, breytt vinnumenningu og ferðatilhögun fólks hugsanleg til frambúðar og sett frábært fordæmi um það hvernig vísindamenn og tengd fyrirtæki víða um heim geta unnið saman að risastórum áskorunum á mettíma við að búa til bóluefni.“

Allt er þetta rétt. Stóra spurningin er hins vegar hvernig staðið er að miðlun þessara nýju viðmiða og þekkingar um samfélögin öll. Liggur ljóst fyrir hvað felst í hugtökunum „sjálfbærni“ eða „samfélagssáttmáli“? Geri stjórnendur fyrirtækja sér grein fyrir því hvað um almenning?

Vandinn við dreifingu þess sem áorkað er með samvinnu vísindamanna, einkaaðila og ríkisvaldsins birtist nú ljóslifandi í því hvernig tekst að dreifa COVID-19-bóluefninu til þeirra sem eiga að fá það. Þar er síður en svo um beina greiðfæra braut að ræða þótt allir bíði með öndina í hálsinum eftir afurðinni.

Ójöfnuður er eitt af lykilhugtökum í umræðum samtímans eins og sjálfbærni, hringrásarhagskerfið og kolefnishlutleysi. Hugtakið ójöfnuður er almennt notað um efnaleg gæði en hvað um miðlun þekkingar og reynslu. Ríkir þar jöfnuður eða ræða þar jafningjar saman um hugðarefni sín og markmið án þess að brauðmolarnir detti til annarra?

Krafan um að háskólasamfélögum sé lokað fyrir „óþægilegum“ skoðunum er rík. Meðal stjórnenda fyrirtækja myndast tískustraumar og stefnur. Alþjóðlegt og innlent styrkjakerfi til rannsókna kallar á að fræðimenn lagi sig að þeim kröfum og keppni um fjármuni. Hvernig á að efla tengslin við þá sem hafa mesta þörf fyrir aðgang að nýrri þekkingu við lausn raunhæfra viðfangsefna? Bergmálshellarnir eru víða.