19.1.2018 13:47

Miðlar fjarskipti ráða fréttastjóra

Í raun er ekki erfitt að hasla sér annan völl við gerð ljósvakafrétta en gert er í ríkisútvarpinu, frétta sem taka mig af öðru en opinberum hagsmunum eða kröfum á hendur opinberra aðila.

Nú hefur verið tilkynnt að þaulvanur fréttamaður, Þórir Guðmundsson, verði fréttastjóri Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone á Íslandi, tóku við rekstri þessara fjölmiðla 1. desember 2017 af 365 sem áfram rekur Fréttablaðið og glanstímaritið Glamour. 

Á sínum tíma ætluðu eigendur 365 að styrkja stoðir fjölmiðlastarfsemi sinnar með því að þróa félag sitt í átt að fjarskiptafyrirtæki. Tilraunin misheppnaðist og nú hefur fjarskiptafyrirtæki eignast ljósvaka- og netstoð 365 og sækir fram á þeim vettvangi.  

Ráðning Þóris í starf fréttastjóra felur í sér fyrirheit um metnað í starfi fréttastofunnar að sögn Björns Víglundssonar, framkvæmdastjóra Miðla fjarskipta, eins og þetta svið samsteypunnar nefnist.  

Aðstaða til samkeppni á sérgreindu sviði ljósvakamiðlunar mótast mjög af því að þar keppa einkaaðilar við ríkisútvarpið sem nýtur algjörs forgangs með um 4 milljarða kr. í tekjur af nefskatti og 2 milljarða af sölu auglýsinga. Fyrir utan rekstur hljóðvarps og sjónvarps heldur ríkisfyrirtækið úti netmiðlinum ruv.is sem keppir við mbl.is og vefmiðla eins og Kjarnann, Stundina og Eyjuna. 

Myndin er frá höfuðstöðvum Vodafone - hún birtist á vefsíðunni vb.is.

Varðstaða stjórnmálamanna um ríkisútvarpið er svo sterk að það dregur úr metnaði við dagskrárgerð auk þess sem sá andi er þar innan húss að um einskonar fyrirtæki starfsmanna sé að ræða eins og sannast hefur oft en þó skýrast þegar þeir hröktu mann sem hafði verið ráðinn fréttastjóri öfugan út úr virkinu í Efstaleiti. 

Fréttastefna ríkisútvarpsins hefur gengið sér til húðar sem birtist meðal annars í því að þar er lítið sem ekkert fjallað um verslun og viðskipti eða aðra atvinnu- og efnahagsþætti þjóðarbúsins en þá sem lúta að kröfum á hendur skattgreiðendum. Stundum mætti halda að þjóðlífið hefði lítið sem ekkert breyst síðan á haftaárunum í kringum 1930 þegar ríkisútvarpið sleit barnskónum. 

Á haustin þegar fjárlagafrumvarpið er í smíðum birtast stöðug áköll í fréttatímum ríkisútvarpsins frá þeim sem telja sig sniðgengna við skiptingu skatttekna ríkisins. Á öðrum árstímum er tónninn sá sami, fari eitthvað úrskeiðis einhvers staðar á opinberu sviði er nær alltaf kennt um skorti á fjármunum. Spurningar um aðra forgangsröðun eða aðhald á einu sviði til styrktar öðru eru ekki á gátlista fréttamanna ríkisins. 

Í raun er ekki erfitt að hasla sér annan völl við gerð ljósvakafrétta en gert er í ríkisútvarpinu, frétta sem taka mið af öðru en opinberum hagsmunum eða kröfum á hendur opinberra aðila. Að gera það er einnig besta leiðin til að styrkja stöðu sína í fjölmiðlaheiminum og höfða til almennra borgara, það er að fjalla um störf þeirra, áhugamál og árangur.  

Lengi hefur verið beðið skýrslu á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um íslenska fjölmiðla á tímum mikilla og örra breytinga. Um fjölmiðla verður að ræða á öðrum forsendum en þeim að ríkisútvarpið sé gefin og óbreytanleg stærð, það sé allra annarra að laga sig að breyttum tímum.