10.6.2024 12:04

Miðjan hélt velli á ESB-þinginu

Þrátt fyrir harkfarir leiðtoga öflugustu ESB-ríkjanna á heimavelli héldu ráðandi öfl mið-hægrimanna í flokki EPP og kristilegra forystu sinni á ESB-þinginu og juku fjölda þingmanna sinna.

Hvaða skoðun sem menn hafa á hlutverki ESB-þingsins og umboði þess við stefnumörkun og töku ákvarðana innan ESB er ljóst að kosningarnar sem lauk sunnudaginn 9. júní hafa víðtæk pólitísk áhrif í mörgum ESB-ríkjum.

Athyglin beinist einkum að forysturíkjum sambandsins, Frakklandi og Þýskalandi.

Í Frakklandi tapaði Emmanuel Macron forseti illa fyrir Þjóðarhreyfingu Marine Le Pen og brást við að kvöldi kjördags með því að rjúfa þing og boða til fyrri umferðar þingkosninga strax 30. júní.

Jafnaðarmannaflokkur Olafs Scholz Þýskalandskanslara fékk aðeins 14% atkvæða en þjóðernissinnaflokkurinn AfD fékk 16,2% og kristilegu flokkarnir (CDU/CSU) samtals 30,2%. Þýska stjórnin kemur löskuð frá kosningunum því að græningjar og frjálslyndir samstarfsmenn Scholz töpuðu einnig fylgi.

Þrátt fyrir harkfarir leiðtoga öflugustu ESB-ríkjanna á heimavelli héldu ráðandi öfl mið-hægrimanna í flokki EPP og kristilegra forystu sinni á ESB-þinginu og juku fjölda þingmanna sinna.

Screenshot-2024-06-10-at-12.02.45Ursula von der Leyen fagnar sigri í ESB-þingkosningunum.

Ursula von der Leyen er frambjóðandi EPP til að sitja áfram sem forseti framkvæmdastjórnar ESB næstu fimm árin. Njóti hún stuðnings jafnaðarmanna og frjálslyndra á þinginu á hún vísan sigur því að saman ráða þessir þrír þingflokkar yfir 403 atkvæðum af 720 á þinginu, um 56% allra þingsæta samkvæmt því sem talið var að morgni mánudagsins 10. júní.

Ef í nauðir rekur getur Ursula von der Leyen leitað stuðnings hjá breiðari hópi þingmanna. Fyrir kosningar var talið að hún kynni að eiga samstarf við flokk Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Bræður Ítalínu, sem bauð nú í fyrsta sinn fram til ESB-þingsins og hlaut hvorki meira né minna en 24 þingsæti. Afstaða þingmanna flokksins skiptir því máli á þinginu og skapar Meloni nýja áhrifastöðu á ESB-vettvangi.

Kremlverjar fylgdust náið með kosningabaráttunni og Vladimir Pútin flutti fleira en eina ræðu um kjarnavopn Rússa á lokadögum baráttunnar þegar hann varaði vestrið við að láta Úkraínumönnum í té hernaðarlega aðstoð. Hann hafði ekki erindi sem erfiði. Hvað sem líður fylgi jaðarflokka sem mæla með friðþægingu gagnvart Pútin styrktist sá kjarni innan ESB sem vill ekki kvika frá stuðningi við Úkraínu.

Til marks um það er tekið að Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sem sýnir mikla festu í stuðningi sínum við Úkraínu, styrkti stöðu sína í kosningunum en Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem ræktar tengsl við Pútin, tapaði fylgi.

Í stuttu máli má segja að kosningarnar til ESB-þingsins hafi valdið meira umróti í einstökum aðildarlöndum sambandsins (forsætisráðherra Belgíu sagði t.d. af sér) en á ESB-þinginu sjálfu eða innan stofnana ESB. Þar kann þó einnig margt að gerast áður en endanleg mynd kemst á skipan í æðstu embætti. Megindrættirnir breytast þó ekki og Pútin hrósar ekki neinum pólitískum sigri að loknum þessum kosningum.