7.12.2017 10:22

„Miðgildi auðs“ langhæst á Íslandi

Allt er þetta með nokkrum ólíkindum og í andstöðu við þá mynd sem gjarnan er dregin upp af okkur sem búum við íslenska krónu.

Frá því var sagt á vefsíðu Viðskiptablaðsins,vb.is, í gær, miðvikudag 6. desember, að samkvæmt korti sem byggt væri á árlegum gögnum frá Credit Suisse væru Íslendingar langsamlega ríkasta þjóð Evrópu, og tæplega tvöfalt ríkari en Svisslendingar.

Kortið fylgir hér með en það var einnig birt á vb.is. Það sýnir miðgildi auðs á hvern fullorðinn einstakling í öllum löndum Evrópu í Bandaríkjadölum. Þar kemur fram að hver Íslendingur á 445 þúsund dali, það er 46 milljónir íslenskra króna, en hver Svisslendingur á 229 þúsund dali, það er tæpar 24 milljónir íslenskra króna.

Myndin er fengin úr The Independent

Vb.is segir töluna fengna með því að leggja saman fjármálaeignir og aðrar eignir og draga skuldir frá en þó er tekið fram með stjörnumerkingu að vegna lélegra upplýsinga sé matið ekki eins nákvæmt alls staðar. Ekki er nánar skýrt hvers vegna gögn frá Íslandi eru ekki talin að fullu marktæk og að landinu sé auk Lúxemborgar skipað í flokk með ríkjum í austurhluta Evrópu þegar að þessu atriði kemur.

Kortið með skýringum birtist í breska blaðinu The Independent þriðjudaginn 5. desember. Þar eru birtar tölur um miðgildi auðs í nokkrum löndum utan Evrópu og eru þær þessar í samanburði við 445 þúsund dali á Íslandi:

Japan 124 þúsund dalir; Bandaríkin 56 þúsund dalir; Kína 6.700 dalir; Brasilía 4.600 dalir; og Indland 1.300 dalir.

Allt er þetta með nokkrum ólíkindum og í andstöðu við þá mynd sem gjarnan er dregin upp af okkur sem búum við íslenska krónu. Þeir sem leitast við að telja okkur trú um að við kæmumst betur af án hennar hljóta að hafa samband við Credit Suisse og kanna réttmæti þessara fullyrðinga bankans. Þá ættu þeir einnig að taka sér fyrir hendur að skýra hvert væri „miðgildi auðs“ hér á landi ef við hefðum annan gjaldmiðil en krónuna. Það skyldi þó aldrei vera að vegna hennar njótum við þessarar sérstöðu. Þá má einnig nefna að Svisslendingar, þjóðin í öðru sæti, býr við eigin gjaldmiðil.