15.6.2022 9:18

Miðflokkurinn fékk sína dúsu

Það er orðinn plagsiður að mynda spennu í þinglok og leysa hana með dúsum til stjórnarandstöðunnar, dúsu sem formenn einstakra þingflokka nota til að pota málum áfram sem þeir flytja sjálfir.

Fundi alþingis lauk klukkan 01.35 aðfaranótt miðvikudags 15. júní. Kapp er lagt á að ljúka störfum þingsins fyrir sumarhlé fyrir þjóðhátíðardaginn, föstudaginn 17. júní. Hvort það tekst eða ekki er óljóst og skiptir í raun engu. Tímamarkið var ákveðið eftir að ekki tókst að standa við starfsáætlun þingsins um að ljúka þingstörfum fyrr. Að það þurfi að dekstra þingmenn stjórnarandstöðunnar til að sumarfrí þeirra hefjist er niðurlægjandi fyrir þá.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, flutti ræðu undir liðnum störf þingsins þriðjudaginn 14. júní og sagði að næstu tvo sólarhringa mundu þingmenn samþykkja á færibandi frumvörp og þingsályktunartillögur sem samið hefði verið um að klára fyrir þinglok. Næstum öll þessi þingmál væru ríkisstjórnarmál, skrifuð af ráðuneytum. Einungis fjögur mál skrifuð af þingmönnum hefðu hlotið þá náð að fá umfjöllun og afgreiðslu úr nefnd. Þessi fjögur mál með framsögumönnum frá fjórum mismunandi stjórnarandstöðuflokkum væru hluti af þinglokasamningum. Það væri því miður þannig að undanfarin ár hefðu nær engin þingmannamál fengið afgreiðslu á þinginu ef frá væru talin þau örfáu mál sem væru hluti af þinglokasamningum á hverju ári. Skipti þá engu hversu góð málin væru eða hversu margir þingmenn væru meðflutningsmenn á málinu. Taldi þingmaðurinn þetta aðför að lýðræðinu. Eina von þingmanna sem lagt hefðu fram 104 þingmannafrumvörp og 128 þingsályktunartillögur væri að eitthvað af því sem þeir legðu fram yrði „pikkað upp af ráðuneytum og nýtt seinna“. Skoraði hann á formenn þingflokka og þingforseta að finna leið til þess að lýðræðið fengi að njóta sín og mál þau sem þingmenn legðu fram fengju meiri athygli og góðar hugmyndir næðu fram jafnvel þó að þær kæmu ekki frá lögfræðingum ráðuneytanna.

Ræður af þessu tagi eru ekki nýmæli á þingi. Þær snúast um að þingmenn séu hundsaðir en kerfiskarlar og kerlingar ráðuneytanna ráði öllu. Þetta er að sjálfsögðu rangt. Það eru þingmenn sem ráða hvort mál sem lögð eru fram gangi til nefnda og fái þar afgreiðslu sem geri þau tæk til endanlegrar afgreiðslu. Þar ráða ekki lögfræðingar ráðuneyta för.

Þinglokasamningarnir svonefndu bera að nokkru með sér að þingmönnum þyki í góðu lagi að slá af kröfum um vönduð vinnubrögð, reist á samráði og umsögnum, vegna eigin gælumála. Það er orðinn plagsiður að mynda spennu í þinglok og leysa hana með dúsum til stjórnarandstöðunnar, dúsu sem formenn einstakra þingflokka nota til að pota málum áfram sem þeir flytja sjálfir.

93305477_565664580719396_1541020371585597440_oSigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason efndu til málþófs og fengu sitt fram (mynd midflokkurinn.is).

Hér var í gær sagt frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason hefðu kvöldið áður flutt 20 ræður á þremur tímum, stofnað til málþófs, til að knýja á um aðild tveggja manna þingflokksins að þinglokasamkomulaginu. Í Morgunblaðinu í dag segir að þeir félagar hafi nú fengið sína dúsu, „leigubílafrumvarp innviðaráðherra verði ekki afgreitt á þessu þingi“.

Að tala niður vönduð vinnubrögð við lagasetningu og nýta heimatilbúna tímaþröng til að knýja í gegn hálfköruð eigin frumvörp eins og formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar líðst er ekki til styrktar lýðræðinu.