Miðflokksmenn í sumarskapi
Fyrir Ólafi Ísleifssyni vakir ef til vill að efla fylgi miðflokksmanna við Guðmund Franklín Jónsson í forsetakosningunum með því að halda áfram ófaglegum umræðum um orkumál.
Nú hafa þingmenn Miðflokksins stofnað til málþófs um samgönguáætlun og spjalla hvor við annan næturlangt í ræðustól alþingis. Þetta minnir á málþófið í fyrra um þriðja orkupakkann sem nú hefur getið af sér forsetaframbjóðanda.
Á Facebook-síðu Skúla Jóhannssonar verkfræðings mátti lesa í gær (18. júní):
„Ólafur Ísleifsson [þingmaður Miðflokksins] og Fjórði orkupakkinn
Í Morgunblaðinu 16. Júní 2020 ritar Ólafur grein um Fjórða orkupakkann.
Helstu markmið pakkans, sem reyndar er kallaður Hreini orkupakkinn, eru:
1) Betri orkunýting. 2) Hlutfallslega meiri notkun endurnýjanlega orkugjafa í raforkuframleiðslu. 3) Samræmdar aðgerðir milli aðildarríkja til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. 4) Meiri réttindi raforkunotenda t.d. við eigin raforkuframleiðslu og meira gegnsæi við innheimtu vegna raforkunotkunar. 5) Notkun snjalllausna á raforkumarkaði til að auka öryggi raforkuafhendingar.
Þetta finnst mér allt sjálfsögð hagsmunamál okkar Íslendinga, en Ólafur Ísleifsson kallar að „Fjórði orkupakkinn vofi yfir“ og þá líklega með einhverjum stórkostlegum afleiðingum eins og um eldgos eða jarðskjálfta væri að ræða.
Rétt er að minna á að nánast allt sem varðar raforkuframleiðslu og –notkun hér á landi er innflutt.
Er nú ekki kominn tími til að menn lækki seglin og hefjist handa við að taka faglega á þessum málum?“
Ólafur Ísleifsson í málþófi á alþingi (mynd: mbl.is/Hari).
Á alþingi spurði Ólafur Ísleifsson iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, hvernig ráðuneyti hennar stæði að málum varðandi þennan orkupakka sem ESB samþykkti fyrir einu ári. Í svarinu sagði meðal annars:
„Hreinorkupakkinn hefur undanfarna mánuði verið til skoðunar á vettvangi EFTA-ríkjanna innan EES hjá vinnuhópi EFTA um orkumál. Í vinnuhópnum sitja sérfræðingar frá EFTA-ríkjunum á þessu sviði. Ítarlega rýni og greining á hreinorkupakkanum stendur yfir og mun sú vinna halda áfram á þessu ári og því næsta. Að því loknu munu viðkomandi EFTA-ríki setja fram sínar kröfur um undanþágur og/eða aðlaganir eftir þörfum og í samráð við sín þjóðþing.
Í framhaldi af því munu hefjast viðræður EFTA-ríkjanna innan EES við framkvæmdastjórn ESB um undanþágur og/eða aðlaganir fyrir EFTA-ríkin innan EES. Því ferli lýkur með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn.
Gera má ráð fyrir að framangreint ferli getið tekið um fjögur til fimm ár, eins og utanríkismálanefnd Alþingis hefur þegar verið upplýst um. Hafa má til hliðsjónar að þriðji orkupakki ESB var samþykktur á vettvangi ESB á árinu 2009 en ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku hans í EES-samninginn (með viðkomandi aðlögunum og undanþágum fyrir EFTA-ríkin) var samþykkt átta árum síðar eða í maí 2017 og öðlaðist síðan gildi í október 2019.“
Öll sú vinna sem lýst er í þessu svari ráðherrans var unnin við þriðja orkupakkann á meðan Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, var utanríkisráðherra með forræði í EES-málum. Hann lagði blessun sína yfir pakkann og fór fram á grænt ljós frá alþingi sem hann fékk. Síðan snerist hann gegn eigin ákvörðunum af þröngum flokkspólitískum ástæðum.
Fyrir Ólafi Ísleifssyni vakir ef til vill að
efla fylgi miðflokksmanna við Guðmund Franklín Jónsson í forsetakosningunum með því að halda áfram
ófaglegum umræðum um orkumál.