16.6.2021 9:32

Metfjöldi nýrra hluthafa

Blekkingar þeirra í stjórnarskrármálinu hafa verið afhjúpaðar og fjöldaþátttaka í hlutafjárútboðum felur í sér fordæmingu á bölbænum þeirra.

Hvað eftir annað kemur nú í ljós að mikill og almennur áhugi er á fjárfestingu í hlutabréfum í meginfyrirtækjum í landinu. Nú varð níföld spurn eftir bréfum í Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans sem lauk 16. júní. Í útboðinu var 35% hlutur í bankanum seldur á 79 krónur á hlut, sem voru efri mörk útboðsverðsins. Heildarsöluandvirðið er 55,3 milljarðar króna. Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka miðað við þetta er 158 milljarðar króna.

Í tilkynningu frá bankanum vegna útboðsloka kemur fram að þetta sé stærsta frumútboð hlutabréfa hér á landi. Alls nam eftirspurnin 486 milljörðum króna. Fjöldi hluthafa í Íslandsbanka verður um 24 þúsund eftir útboðið, mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Ríkið fer áfram með 65% hlut í bankanum, aðrir innlendir fjárfestar 24% hlut og erlendir fjárfestar munu eiga um 11% af heildarhlutafé bankans.

Bjarni Benediktsson, efnhags- og fjármálaráðherra, fagnar sérstaklega mikilli þátttöku almennings í hlutafjárútboðinu. Í tilkynningu frá bankanum segir hann að salan sé ábatasöm fyrir ríkissjóð og komi sér vel í þeirri uppbyggingu sem fram undan sé næstu misseri. „Mestu skiptir þó að við tökum hér fyrsta skrefið í að minnka áhættu ríkisins í bankarekstri og færumst nær heilbrigðara umhverfi líkt og þekkist á Norðurlöndum og öðrum nágrannaríkjum okkar,“ segir Bjarni.

1254643Ýmsir andmæltu þessu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þeirra á meðal er Þorvaldur Gylfason prófessor sem sagði í grein á vefsíðunni Stundinni 11. júní að lögregla og dómstólar „ættu að réttu lagi að stöðva söluferlið“. Stjórn Bankasýslunnar og forstjóri hennar hefðu brugðist skyldu sinni og yrðu að víkja. Bréf í Íslandsbanka væru boðin á undirveðri. Ríkið seldi „vinum sínum ríkiseignir aftur og aftur á undirverði“. Það ætti að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort hægt væri að stöðva söluna eða rifta henni með skírskotun til ákvæðis í stjórnarskránni um að engan mætti skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þyrfti til þess lagafyrirmæli og kæmi fullt verð fyrir. Þegar Þorvaldur vitnar í þessa grein stjórnarskrárinnar sleppir hann upphafsorðum hennar: Eignarrétturinn er friðhelgur. Greinin snýst með öðrum orðum um að sé ákveðið með lögum að taka eign af einhverjum verði að greiða „fullt verð“ fyrir eignina.

Að litið sé á útboðið vegna Íslandsbanka sem eignarnám er hrein rangtúlkun á því hugtaki og sýnir aðeins hve langt er gengið í blekkingarskyni af þeim sem vilja viðhalda ranghugmyndum í umræðum um stjórnlögin og bankahrunið haustið 2008. Í grein sinni segir Þorvaldur að ný ríkisstjórn þurfi „að loknum alþingiskosningum í haust að reyna að girða fyrir tortryggni og efla traust með því að lyfta lokinu af spillingunni og ljúka uppgjörinu við hrunið“. Að því loknu sé tímabært að endurskipuleggja bankakerfið, ekki fyrr. Það þurfi að gera hlutina í réttri röð. Reynslan sýni að bankar í röngum höndum geti valdið gríðarlegu tjóni.

Það verður forvitnilegt að sjá hve lengi falskur tónn þeirra sem lifa og hrærast í hruninu setur svip á umræður um framtíðarmálefni þjóðarinnar. Blekkingar þeirra í stjórnarskrármálinu hafa verið afhjúpaðar og fjöldaþátttaka í hlutafjárútboðum felur í sér fordæmingu á bölbænum þeirra.