19.8.2017 10:41

Merkilegheit Íslandsbanka

Afgreiðsla málsins innan bankans sýndi að fundurinn með æðstu stjórnendum hans var hrein tímasóun. Samskiptastjóri bankans réð. 

Fyrir nokkrum árum, eftir að ég hætti þátttöku í stjórnmálum, vann ég að fjáröflun í þágu menningarstarfsemi. Æðstu stjórnendur Íslandsbanka sýndu okkur samstarfsmanni mínum þann heiður að sitja fund með okkur þar sem við greindum frá hugmyndinni og hvernig bankinn gæti treyst ímynd sína með því að tengjast verkefninu. Var okkur tekið af vinsemd og velvild. Eftir nokkra mánuði barst svarið: Markaðsdeild bankans taldi honum ekki til framdráttar að tengjast verkefninu. Jafnframt ákvað bankinn að veita smástyrk til verkefnisins, án fordæmis.

Afgreiðsla málsins innan bankans sýndi að fundurinn með æðstu stjórnendum hans var hrein tímasóun. Samskiptastjóri bankans réð. 

Þetta atvik kemur í hugann þegar lesið er um stórundarlegar deilur um merkingar á Norðurturninum við Smáralind í Morgunblaðinu í dag. 

Íslandsbanki flutti í turninn eftir að hús hans á Kirkjusandi reyndist ónothæft vegna myglu. Bankinn er stór hluthafi í Norðurturni og helsti lánveitandi og vill ekki að aðrir leigjendur í húsinu fái að setja merki sitt á turninn. Hann skal aðeins merktur bankanum. Sérstök stjórn fer með málefni Norðurturnsins og er hún algjörlega á bandi bankans og hafnar öllum tilraunum til sátta við aðra viðskiptavini sína. Að mati þeirra sem vilja ekki sætta sig við ofríki bankans í þessu máli er stjórn Norðurturnsins einfaldlega í vasanum á bankanum. Hann er ríkisfyrirtæki.

Í Morgunblaðinu er haft eftir fulltrúa eins aðila sem deilir um merkingu Norðurturnsins við bankann: „Þess væri óskandi að fjármálafyrirtæki sem segist vera samfélagslega ábyrgt sýndi betra andlit og sáttahug. Þetta er kjánalegt merki um valdníðslu, frekju og yfirgang.“

Stjórnendur banka eru óvanir því að menn tali þannig til þeirra á opinberum vettvangi. Orðin sýna að bankanum og stjórn Norðurturnsins hf. hefur tekist að ofbjóða viðmælendum sínum. Samskiptastjóri bankans segir málið í „ferli innan bankans“. Framkvæmdastjóri Norðurturnsins  hf. segir félagið vinna í „samræmi við gerða samninga“.

Eitt er að berjast upp á líf og dauða fyrir að eiga einn merki á Norðurturninum annað að berjast á þann hátt að aðferðirnar séu „kjánalegt merki um valdníðslu, frekju og yfirgang“. Fyrirtæki hafa frjálst val um að velja sér þann merkimiða sem þau kjósa. Af bönkum fer það orð að þeir fari sínu fram hvað sem aðrir segja. Við Íslendingar höfum dapra reynslu af því.