Merkel hittir Katrínu
EES-samningurinn er öflugasti og skýrasti samstarfsrammi Íslendinga og Þjóðverja. Þegar þess er krafist að pólitísk áhætta sé tekin um framtíð þessa ramma vegna þriðja orkupakkans mætti ætla að mönnum sé ekki sjálfrátt.
Angela Merkel Þýskalandskanslari hittir Katrtínu Jakobsdóttur í Reykjavík í dag og tekur síðan þátt í fundi forsætisráðherra Norðurlanda hér á landi á morgun. Helmut Kohl, forveri hennar, varð fyrsti erlendi ríkisoddvitinn sem flutti ræðu á þingi Norðurlandaráðs. Sá sögulegi viðburður gerðist í Helsinki í mars 1992. Þýskaland hafði nýlega sameinast og Kohl flutti norrænu þingmönnunum þann boðskap að þeir ættu að taka nýfrjáls Eystrasaltsríkin í pólitískt fóstur. Þetta var einnig á lokavikum samninganna um Evrópska efnahagssvæðið annars vegar milli EB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna og samninganna milli EB-ríkjanna sem leiddu til Maastricht-sáttmálans og lögðu grunn að Evrópusambandinu (ESB) og evrunni.
Mauno Koivisto Finnlandsforseti segir frá því í
æviminningum sínum að hann hafi rætt aðild Finna að EB á fundi með Helmut Kohl í
mars 1992. Lá í loftinu að hlutlausu ríkin í EFTA, Austurríki, Finnland og Svíþjóð,
sem tóku þátt í að gera EES-samninginn, stefndu á nánara samstarf við EB-ríkin
eftir að hrun Sovétríkjanna jók svigrúm þeirra til þess. Gerðust þjóðirnar þrjár
aðilar að ESB, Norðmenn sömdu í annað sinn um aðild en hún var felld að nýju í
þjóðaratkvæðagreiðslu. Svisslendingar höfnuðu bæði aðild að EB og EES í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Boris Johnson þarf líklega meira en þennan hjálm til að verjast atlögunni sem að honum er gerð.
Íslendingar og Norðmenn stofnuðu EES með ESB 1. janúar 1994 og Liechtensteinar slógust í hópinn á árinu 1995.
EES-samningurinn er öflugasti og skýrasti samstarfsrammi Íslendinga og Þjóðverja. Þegar þess er krafist að pólitísk áhætta sé tekin um framtíð þessa ramma vegna þriðja orkupakkans mætti ætla að mönnum sé ekki sjálfrátt nema þeir vilji markvisst sanna á þennan hátt að oft geti lítil þúfa velt þungu hlassi.
Afleiðingar áhættufíknar í Evrópumálum verða oft aðrar en ætlað er. Brexit-vandi Breta sannar þetta. Sé að marka mat breskra embættismanna stendur breska þjóðin frammi fyrir skorti á eldsneyti, matvælum og lyfjum og að líkindum lokuðum landamærum á Írlandi fari hún úr ESB án samnings 31. október. Skjali um þetta var lekið til The Sunday Times og birtist 18. ágúst.
Í blaðinu segir að ekki sé um sviðsmynd að ræða heldur mat æðstu embættismanna á því sem líklegast sé að gerist við brexit án samnings.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að ekki verði unnt að hindra upptöku víðtæks eftirlits á landamærum sem leiði til mikilla tafa á flugvöllum. Talið er að ökumenn 85% vöruflutningabíla sem fara yfir Ermarsund milli Bretlands og Frakklands verði ráðþrota andspænis frönskum landamæravörðum sem geti leitt til allt að þriggja mánaða tafa í höfnum.
Birting þessarar trúnaðarskýrslu veldur uppnámi í Bretlandi. Stuðningsmenn Boris Johnsons forsætisráðherra segja að fyrrv. ráðherrar í stjórn Theresu May leki skýrslunni til að spilla fyrir viðræðum Johnsons við Angelu Merkel og Emmanuel Macron Frakklandsforseta síðar í vikunni.
Sumarleyfum á stjórnmálavettvangi er lokið. Átök magnast og línur skýrast.