29.10.2020 18:50

Menningarverðlaun Suðurlands 2020

SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, heiðruðu okkur Rut í dag fyrir menningarstarfið að Kvoslæk

Við Rut vorum boðuð á ársþing SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, á Selfossi síðdegis fimmtudaginn 29. október þar sem við vorum heiðruð með að veita okkur menningarverðlaun Suðurlands 2020 fyrir menningarstarf að Kvoslæk. Á heiðursskjali sem Eva Björk Harðardóttir, formaður stjórnar SASS, oddviti Skaftárhrepps, afhenti okkur stendur:

„Hjónin að Kvoslæk hafa með drifkrafti sínum og eljusemi vakið verðskuldaða athygli á metnaðarfullum menningarviðburðum og komið með ferskan innblástur í menningarlíf á Suðurlandi. Starfsemin hefur vakið eftirtekt fyrir fjölbreytni, gefið jákvæða mynd af sunnlenskri menningu, stuðlað að þátttöku heimamanna og laðað gesti að landshlutanum.“

20201029160931__MG_8680Við Rut og Eva Björk Harðardóttir, formaður SASS, við afhendingu menningarverðlauna Suðurlands (mynd Gunnar Páll Pálsson).

Vegna farsóttarinnar var ársþingið haldið á netinu. Rut flutti þakkarávarp fyrir okkar hönd og sagði:

Kæru vinir, stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og allir aðrir nær og fjær.

Okkur Birni, húsbændum að Kvoslæk í Fljótshlíð, er mikill heiður og virðing sýnd með veitingu menningarverðlauna Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í ár.

Hinn 1. maí 2001 hófumst við handa við að endurreisa húsakost að Kvoslæk.

Fyrst var það litla íbúðarhúsið, en síðar öll útihúsin frá grunni, því mig langaði að hafa aðstöðu fyrir tónleika.

Strax árið 2005 bauð ég upp á flóamarkað utandyra einu sinni á sumri til að lífga upp á lífið í sveitinni.

Það var svo í byrjun júní 2011 sem ég hélt fyrstu tónleikana í Hlöðunni með píanóleikara mínum Richard Simm. Ég hafði leyst til mín flygil föður míns Ingólfs Guðbrandssonar við skipti dánarbús hans 2009.

Síðan þá höfum við haldið fjölda tónleika að Kvoslæk með okkar bestu hljóðfæraleikurum og söngvurum, fengið ótal fræðimenn til að segja gestum frá sínum ólíku viðfangsefnum, jafnvel leikara með leiklestur, að ógleymdum qi-gong heilsunámskeiðum með erlendum leiðbeinendum. Árið 2018 minntumst við fullveldisins sérstaklega með fyrirlestraröð.

Allt hefur þetta heppnast eins og best verður á kosið, fjölbreytt dagskrá sem höfðar til ólíkra hópa, yfirleitt fullt hús og stundum yfirfullt. Vegna vinskapar míns við tónlistarmenn og reynslu af skipulagi og tónleikahaldi hefur þetta allt gengið að óskum.

Ómetanlegt hefur verið að njóta fjárhagslegs stuðnings úr uppbyggingarsjóði SASS, frá sveitarstjórn Rangárþings eystra og úr Tónlistarsjóði vegna þessa framlags okkar til menningarinnar.

Um og uppúr 1990 gerði ég víðreist um landið með fleiri en eina fiðlu í farteskinu. Ég valdi sýslur þar sem engin kennsla var á strengjahljóðfæri, hélt tónleika í hverri kirkju og kynnti fiðluna fyrir nemendum í hverjum bekk í grunnskólunum. Ég taldi mikilvægt að börn og unglingar fengju að sjá og heyra leikið á strengjahljóðfæri í sínu nærumhverfi og þau fengu líka að prófa að spila.

Eftir að við eignuðumst okkar annað heimili að Kvoslæk heimsótti ég tónlistarskólann á Hvolsvelli, kynnti fiðluna og sagði nokkrum nemendum til.

Við Guðjón Halldór Óskarsson orgelleikari höfum átt heilladrjúgt samstarf um tónleikahald í kirkjum héraðsins, þar sem einsöngvarar og kórar úr Rangárþingum hafa tekið þátt. Á tónleikum undanfarin ár höfum við kynnt tónlist meistara tónlistarsögunnar bæði fyrir flytjendum og áheyrendum.

En víkjum aðeins að lífinu í sveitinni.

Foreldrar Björns, Sigríður Björnsdóttir, húsmóðir og Bjarni Benediktsson, ráðherra, voru bæði fædd og alin upp í Reykjavík en Björn var sjálfur 9 sumur í sveit að Reynistað í Skagafirði. Hann var því vel hagvanur við sveitastörf þegar við fluttum að Kvoslæk.

Foreldrar mínir voru hins vegar bæði fædd og alin upp í sveit hér á Suðurlandi, móðir mín, Inga Þorgeirsdóttir, kennari, á Hlemmiskeiði á Skeiðum og faðir minn Ingólfur, kennari, söngstjóri og ferðamálafrömuður, á Prestbakka á Síðu.

Móðuramma mín Vilborg seldi allt sitt á Hlemmiskeiði og flutti til Reykjavíkur eftir að afi minn Þorgeir lést, 1943, 58 ára gamall.

Afi minn og amma, Guðbrandur og Guðrún seldu allt sitt á Prestbakka og fluttu til Reykjavíkur ásamt Rósu föðursystur minni, á Hofteiginn til okkar árið 1947, í hálfbyggt hús. Þau bjuggu hjá okkur í tæplega 20 ár.

Tengslin austur slitnuðu og við systurnar náðum ekki að kynnast þeirra sveitum. Ég var skírð í Prestbakkakirkju, en var orðin 27 ára þegar ég kom þangað aftur. Úr þessu hef ég bætt síðar með tónleikum og skólaheimsóknum um báðar sýslur foreldra minna.

Við Björn höfum bæði góðar rætur í sveitinni, þótt á ólíkan hátt sé.

Við metum mjög mikils þessa góðu viðurkenningu sem treystir ræturnar enn frekar.

Með innilegu þakklæti.

122925013_10224601397640699_4820604027819212300_oÞessa mynd frá ársþingi SASS 2020 birtist á Facebook.