16.1.2018 10:19

Mengunarslys - skortir fyrirbyggjandi viðhald?

Allt minnir þetta dálítið á það sem gerðist við strendur Reykjavíkur sl. sumar þegar magn saurgerla fór yfir ákveðið mark.

Tvö sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók af köldu vatni í Reykjavík föstudag 12. janúar stóðust ekki viðmið. Jarðvegsgerlar mældust í kalda vatninu. Frá þessu var skýrt síðdegis mánudags 15. janúar. Var mælst til þess að vatn yrði soðið í flestum hverfum borgarinnar, sérstaklega fyrir þá sem væru viðkvæmir fyrir, eins og aldraða, ungbörn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Rætt var við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni í ríkisútvarpinu að morgni þriðjudags 16. janúar. Hann sagði yfirgnæfandi líkur á að engar hættulegar bakteríur væri að finna í vatninu á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að borgarbúum hefði verið ráðlagt að sjóða það vegna jarðvegsgerlamengunar. Þórólfur sagði hins vegar brýnt að fá úr þessu skorið sem fyrst, meðal annars vegna þess að það væri mikill vandi fyrir starfsfólk Landspítalans að sjóða allt vatn. Fram kom í fréttum að starfsmenn Landspítalans fréttu ekki af þessari hættu vegna mengunar í neysluvatni fyrr en í almennum fréttum síðdegis mánudaginn 15. janúar.

Fimmtudaginn 11. janúar birti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á vefsíðu sinni tilkynningu um að þann dag hefði fengist „staðfesting á að í neysluvatnssýni sem Veitur ohf. tóku á þriðjudag þann 9. janúar sl. greindist ein E.coli í þremur sýnum úr borholum á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Sýnatakan var gerð vegna mikils vatnsveðurs.

Um leið og upp kom grunur um frávik í sýni var samstundis lokað fyrir dreifingu á neysluvatni frá þessum borholum til neytenda. Sama dag, þann 9. janúar, tók Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sýni úr dreifikerfinu, sem var í lagi,“ sagði þar.

Kortið af vatnsverndarsvæðinu er af vefsíðu Veitna.

Af þessu má ráða að tæp vika leið frá því að vísbendingar bárust um að ekki væri allt með felldu á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk þar til viðvörunin um að sjóða neysluvatns birtist.

Í tilkynningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur mánudaginn 15. janúar sagði: „Sýni verða tekin áfram daglega, bæði úr borholum af Veitum og af Heilbrigðiseftirlitinu úr dreifikerfinu, þar til ástand neysluvatnsins er viðunandi.  Tilkynnt verður þegar ástand vatnsins stenst reglugerð nr. 536/2001 en skv. henni er um óeðlilegt ástand að ræða og er vísbending um að ofanvatn hafi borist í vatnið eins og áður sagði.“

Allt minnir þetta dálítið á það sem gerðist við strendur Reykjavíkur sl. sumar þegar magn saurgerla fór yfir ákveðið mark og yfirvöld borgarinnar ætluðu að humma málið fram af sér. Það var ekki fyrr en fréttamaður sjónvarps varð var við mengunarflekk á Skerjafirði sem upplýst var um mengunina. Þá lofuðu yfirvöld að breyta „verkferlum“ og skýra almenningi frá færi eitthvað úrskeiðis frá Veitum.

Það hefur nú verið gert á þann veg sem að ofan er lýst, seint og um síðir og án sérstakrar viðvörunar til þess sem málið varðar mest Landspítalans.

Síðastliðið sumar birtist Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eins og áhorfandi eða fréttaskýrandi þegar rætt var um mengunarslysið við hann. Í Morgunblaðinu segir 16. janúar: „Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagðist í samtali við mbl.is vera kominn með gögn víðvíkjandi málinu og myndi kynna sér þau vel. Brugðist yrði við með viðeigandi hætti.“

Ekki kom fram hvað borgarstjóri ætlaði annað að gera en lesa gögn um málið. Hann setur að minnsta kosti ekki fram kröfur um að gæta skuli fyllsta öryggis í þágu borgarbúa og fylgir þeim fram. Varla þarf hann að lesa gögn til þess?

Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri, frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor, segir í samtali við Morgunblaðið 16. janúar að Reykvíkingar eigi heimtingu á að fá greinargóðar skýringar á því hvernig þetta gat gerst. „Getur verið að fyrirbyggjandi viðhaldi hafi verið ábótavant? Hver ber ábyrgð á þessu,“ spyr hann. Orkuveita Reykjavíkur hafi unnið samkvæmt „plani“ um aðhald, ef til vill kosti skortur á fyrirbyggjandi viðhaldi sitt á endanum.

Eyþór víkur þarna að atriði sem hlýtur að verða kannað nánar: hvort markviss skortur á fyrirbyggjandi viðhaldi sé undirrót bilunar í skolphreinsistöð, eyðileggingar á vesturhluta orkuveituhússins og jarðvegsleka í ótraustum borholum í Heiðmörk – svo að dæmi séu nefnd.