21.3.2024 10:41

Meiri flugfarþegaupplýsingar

Fram kemur í frásögn Brussel-vaktarinnar að við smíði þessara reglna hafi verið tekið tillit til séróska íslenskra stjórnvalda um notkun gagnanna í þágu löggæslu. 

Þess er minnst í Brussel í vikunni á sameiginlegum fundi forsætisráðherra EES/EFTA-ríkjanna (Íslands, Liechtensteins og Noregs) og leiðtogaráðs ESB að í ár eru 30 ár liðin frá gildistöku EES-samningsins.

Verkefni íslenskra stjórnvalda er að nýta fullveldisréttinn til að skapa borgurum sínum full réttindi í samræmi við EES-samninginn. Á því er misbrestur sem vilji er til að leiðrétta eins og frumvarp utanríkisráðherra til lögskýringar á bókun 35 við samninginn ber með sér. Alþingi ætti að gefa þeim sem lúta lögsögu þess lögfestingu þessa frumvarps í tilefni af 30 ára afmæli samningsins.

Til hliðar við EES-samninginn en þó innan ramma samstarfsins við ESB gerðist Ísland fyrir rúmum aldarfjórðungi aðili að Schengen-samkomulaginu til að auðvelda ferðir fólks milli aðildarlanda samkomulagsins. Öll EFTA-ríkin (Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss) eru aðilar að Schengen.

Images-2-scg

Nokkrar umræður hafa verið um miðlun upplýsinga um flugfarþega í landamæra- og löggæslutilgangi hér á landi undanfarið að frumkvæði héraðslögreglustjórans á Suðurnesjum sem stjórnar landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli. Segist hann hafa lítið gagn af evrópskum gagnagrunnum um þessa farþega við landamæravörslu og löggæslu.

Á vef stjórnarráðsins birtast vikulega upplýsingar á íslensku um það sem ber hæst hverju sinni í Brussel og snertir EES-samstarfið. Svonefnd Brussel-vakt stjórnvalda safnar og miðlar þessum upplýsingum og gerast má áskrifandi að fréttum hennar.

Vaktin sagði 15. mars frá því að náðst hefði samkomulag innan ESB um söfnun og miðlun upplýsinga um flugfarþega, annars vegar til landamæravörslu og hins vegar í löggæslu, þ. e. einkum í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Reglunum er annars vegar ætlað að tryggja að upplýsingarnar liggi fyrir áður en farþegi kemur inn fyrir ytri landamæri Schengen-svæðisins og hins vegar er kemur að flugi innan svæðisins.

Þetta er samansafn upplýsinga úr ferðaskilríkjum einstaklinga auk staðlaðra flugupplýsinga sem miðlað er til stjórnvalda þess ríkis sem farþegi hyggst ferðast til bæði fyrir og eftir flugtak. Þarna er um að ræða nafnalista, fæðingardag, ríkisfang, tegund og númer ferðaskilríkis, sætisupplýsingar og upplýsingar um farangur. Þá verður flugrekendum skylt að safna ákveðnum upplýsingum, s. s. flugnúmeri, flugvallarnúmeri og tímasetningum komu og brottfarar.

Fram kemur í frásögn Brussel-vaktarinnar að við smíði þessara reglna hafi verið tekið tillit til séróska íslenskra stjórnvalda um notkun gagnanna í þágu löggæslu. Nú er unnið að því að framkvæmd þessara reglna nái til EFTA-ríkjanna í Schengen. Það styrkir líklega ekki samningsstöðu Íslands að héraðslögreglustjóri hér telji evrópska grunna með þessum gögnum ekki koma að neinum notum.