30.12.2022 10:00

Með Sjálfstæðisflokkinn á heilanum

Þegar þetta er lesið vaknar spurning um hvernig unnt er að líta á Íslandsdeild Transparency International sem óhlutdrægan aðila undir forystu Atla Þórs.

Tillaga Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu liggur fyrir alþingi um þessar mundir.

Af því tilefni hefur Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, bent á að þar sé ekki rætt um hervarnir Íslands og þar með skapi íslensk stjórnvöld sér sérstöðu innan NATO. Rökstyður Baldur afstöðu sína og setur fram hugmyndir um úrbætur.

Það er fagnaðarefni að pófessor við Háskóla Íslands skuli taka til máls um varnar- og öryggismál og setja fram ígrundaðar tillögur um það sem hann telur að verði til að styrkja stöðu landsins og efla öryggi þjóðarinnar í samvinnu við bandamenn hennar.

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, tekur því þó ekki vel hvernig Baldur Þórhallsson ræðir þessi mál. Á Facebook-síðu sinni kallar hann Baldur „mjög svo byssuglaðan háskólaprófessor“.

ItrmagesTransparency International eru alþjóðasamtök um gagnsæi eins og nafnið gefur til kynna. Undir forystu Atla Þórs Fanndals hefur Íslandsdeildin beitt sér hér á landi og erlendis, þar á meðal í Namibíu, við að útmála þá sem deildin telur ekki fara að stöðlum hennar varðandi gagnsæi og spillingu.

Atli Þór segist sammála Baldri um að það sé „skömm“ að því „hvað Ísland fjárfestir lítið í eigin varnar og öryggismálum“. Áður var Atli Þór forstjóri Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands sem var stofnuð 2019 og fjármagnar sig með verkefnavinnu til að ýta undir þekkingar- og verðmætasköpun sem tengist þátttöku Íslands í geimvísindum. Atli Þór skýrir ekki lesendum sínum frá því hvar hann telur Íslendinga eiga að fjárfesta í eigin varnar- og öryggismálum. Ef til vill telur hann með þekkingu sína á flugskeytum og eldflaugum skynsamlegast að verja fé til gagneldflaugakerfa?

Megingagnrýni Atla Þórs á málflutning Baldurs er að prófessorinn beini ekki spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum heldur haldi sig að forsætisráðherra. Ráðherrann flytur þó tillöguna á alþingi sem er tilefni skrifa Baldurs um þessi mál. Baldur forðist „að gagnrýna það stjórnmálaafl sem er eins og mara yfir öllu í landinu“ –– Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar þetta er lesið vaknar spurning um hvernig unnt er að líta á Íslandsdeild Transparency International sem óhlutdrægan aðila undir forystu Atla Þórs. Hann gefur sér forsendu og veitist að fylgismesta stjórnmálaflokki landsins – er það í anda gagnsæis?

Um hátíðirnar flutti ríkisútvarpið fjóra unna þætti um Jósafat Arngrímsson. Í kynningu er hann sagður „mikilsvirtur athafnamaður á Suðurnesjum, vonarstjarna í Sjálfstæðisflokknum...“ Vonarstjarna er samkvæmt orðabókinni „hæfileikaríkur einstaklingur sem vonir eru bundnar við“. Það átti alls ekki fyrir Jósafat að liggja að hljóta þann frama sem hann vænti innan Sjálfstæðisflokksins. Jósafat stofnaði eigin flokk sem naut einskis fylgis. Það er mikill ljóður á annars fróðlegum og vel unnum þáttum um Jósafat að þar er sama þráhyggjan og hjá Atla Þór þegar kemur að Sjálfstæðisflokknum. Feðginin Snærós Sindradóttir og Sindri Freysson hafa umsjón með þáttunum um Jósafat.