23.6.2022 11:32

MDE-vandræði stjórnvalda

Íslendingar taka nú við formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Áherslumál formennskuríkjanna taka mið af reynslu þeirra af aðild að ráðinu, þar á meðal störfum MDE.

Ástæðan fyrir tveir af þremur lögfræðingum sem íslensk stjórnvöld tilnefndu til Evrópuráðsins vegna setu Íslendings í Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) drógu tilnefningu sína til baka hefur ekki verið skýrð á fullnægjandi hátt.

Að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem heimsótti MDE í Strassborg á dögunum verður ríkisstjórn hennar að auglýsa að nýju eftir umsækjendum til að þriggja nafna tillagan sé gild.

Í Morgunblaðinu í dag (23. júní) segir Katrín að þetta „bakslag“ seinki ferlinu „en þó ekki verulega“. Forsætisráðherra sagði einnig: „Við verðum bara að taka þessu og vinnum áfram að því að ljúka málinu.“

Íslendingar taka nú við formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Áherslumál formennskuríkjanna taka mið af reynslu þeirra af aðild að ráðinu, þar á meðal störfum MDE sem virðist færa sig sífellt meira inn á pólitíska sviðið og stunda í ríkara mæli það sem sumir kalla „framsækna lögskýringu“, það er smíði lagareglna.

2022-06-21-12-09-42-601Katrín Jakobsdóttir og Róbert Spanó,, forseti MDE í Strassborg (mynd; vefsíða stjórnarráðsins).

Stjórnmálamenn í aðildarlöndunum kunna ekki allir að meta þetta inngrip MDE-dómara og fyrir nokkrum árum ætlaði danska ríkisstjórnin að reyna að stemma stigu við því í formennsku sinni í ráðherraráðinu. Ættu Íslendingar að dusta rykið af þeim hugmyndum.

Dominic Raab dómsmálaráðherra vill nú festa í lög að breskir dómstólar séu ekki bundnir af niðurstöðu MDE eftir að dómstóllinn hindraði framkvæmd ákvörðunar bresku stjórnarinnar um flutning hælisleitenda til dvalar í Rúanda.

Í annarri grein laga um mannréttindasáttmála Evrópu frá 1994 segir:

„Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“

Hvort Raab fór í íslenska lagasafnið í leit að fordæmi fyrir frumvarp sitt kemur ekki fram í fréttum. Hann segist ekki leggja til að Bretar segi sig úr Evrópuráðinu og skipi sér við hlið Belarús, Evrópuríkisins utan Evrópuráðsins – sé ekki litið til Rússa utan ráðsins vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Í samtali við mbl.is að kvöldi 22. júní sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, að ekki væri réttmætt að efast um hæfi íslensku lögfræðinganna tveggja sem drógu MDE-umsóknir sínar til baka. Það væri rangt að láta umsækjendur lýsa þekkingu sinni á dómaframkvæmd MDE, nýir dómarar ættu „helst ekkert að vita um fordæmi“ dómstólsins. Þetta væri „bara aðferð til þess að dómarahópurinn sjálfur“ réði hverjir yrðu nýir dómarar. Íslendingar ættu ekki að sitja undir þessu.

Þrír íslenskir þingmenn sitja á þingi Evrópuráðsins sem kýs, pólitískri kosningu, MDE-dómara. Hver skyldi afstaða þeirra vera til þess hvernig íslenska umsóknarferlið hefur þróast? Hafa þeir skýringu á því hvers vegna dómaraefnin tvö drógu umsóknir sínar til baka? Var pólitískur þrýstingur á bak við tjöldin? Var ekki æskilegt að þingið fengi að taka afstöðu til þessara þriggja einstaklinga?