21.2.2020 11:44

MDE gagnrýndur á hæstaréttarafmæli

Þarna er óbeint vikið að gagnrýni sem birst hefur hér undanfarið á meðferð MDE á landsréttarmálinu svonefnda.

Þess var minnst sunnudaginn 16. febrúar 2020 að Hæstiréttur Íslands hafði starfað í 100 ár. Efnt var til hátíðarsamkomu í Þjóðleikhúsinu sem af myndum að dæma var ekki fjölsótt. Fyrir utan ávörp forseta Íslands, forseta alþingis og ráðherra voru fluttir tveir fyrirlestrar: Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti hæstaréttar og hæstaréttardómari, og Mads Bryde Andersen, prófessor frá Kaupmannahöfn, töluðu.

Danski prófessorinn er kunnur fyrir gagnrýna afstöðu sína til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg. Hann telur að dómarar þar gangi oft inn á valdsvið löggjafans í túlkunum sínum og niðurstöðum. Mads Bryde Andersen fór ekki í launkofa með skoðanir sínar í samtali Baldurs Arnarsonar blaðamanns við hann sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 20. febrúar.

AndersenMDE sætir vaxandi gagnrýni víða um lönd og í samtalinu kemur fram að innan dönsku ríkisstjórnanarinnar séu efasemdir um dómstólinn. Minnt er á að fyrir útgöngu Breta úr ESB hafi verið rætt þar á stjórnmálavettvangi að segja Breta undan lögsögu MDE.

Í Morgunblaðinu segir:

„Andersen telur jafnframt að aðferð Mannréttindadómstólsins við að semja dóma sé gagnrýniverð.

Dómstóllinn fái árlega um 50 þúsund umsóknir um málsmeðferð og vísi flestum frá með stuttri, skriflegri umsögn lögfræðings hjá dómstólnum sem einhver dómaranna skrifi undir. Sé hins vegar samþykkt að taka mál fyrir fari það í hendur dómara sem hafi forræði á málinu. Sá semji síðan drög að dómsniðurstöðu með aðstoð lögfræðinga dómstólsins. Hún sé síðan borin upp í viðkomandi undirdeild. Málflutningur sé skriflegur.

Við það tilefni geti aðrir dómarar lýst gagnstæðum sjónarmiðum. Þá geti þurft sterk bein til að ganga gegn niðurstöðu lögfræðinga dómstólsins og sjónarmiðum dómara aðildarríkis sem málið varðar.

Dómararnir hafi tilhneigingu til að fylgja dómara frá aðildarríkinu.“

Þarna er óbeint vikið að gagnrýni sem birst hefur hér undanfarið á meðferð MDE á landsréttarmálinu svonefnda. Þar situr dómarinn frá Íslandi bæði í neðri og efri deild dómsins og sé skoðun danska prófessorsins rétt hafa skoðanir hans mótandi áhrif á viðhorf annarra dómara á báðum dómstigum. Í málinu er tekist á um ágreiningsefni milli framkvæmdavalds og dómsvalds á Íslandi þar sem löggjafarvaldið kemur jafnframt við sögu. Efast einhver um hvers taum íslenski dómarinn dregur?

Á sínum tíma var efnt til málþings í tilefni af 50 ára afmæli mannréttindasáttmálans og flutti ég þar fyrirlestur sem lesa má hér . Þáverandi forseti MDE var meðal gesta og töldu einhverjir að óviðeigandi hefði verið að tala á þann veg sem ég gerði um „lifandi túlkun“ MDE. Nú þegar hæstiréttur gerir slíkri gagnrýni hátt undir höfði á 100 ára afmæli sínu má segja það boða nýja tíma.