6.8.2019 9:55

Mbl.is leitar til dr. Baudenbachers

Tilefni samtalsins er að Baudenbacher „fjallaði um þetta í ritgerð sem birt var í Tímariti lögfræðinga árið 2007.

Mánudaginn 5. ágúst birti Hjörtur J. Guðmundsson, blaðamaður á mbl.is, viðtal við dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, til að fá það staðfest að EES-samningurinn hefði „haft yfirþjóðleg einkenni allt frá því að hann tók gildi fyrir aldarfjórðungi síðan“ eins og segir í inngangi fréttarinnar.

Tilefni samtalsins er að Baudenbacher „fjallaði um þetta í ritgerð sem birt var í Tímariti lögfræðinga árið 2007 en ritgerðin hefur verið gerð að umtalsefni í umræðunni um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem stjórnvöld vilja að samþykktur verði á Alþingi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Nú síðast af Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi“.

Efta_presidentDr. Carl Baudenbacher

Blaðamaðurinn ber efni ritgerðarinnar undir Baudenbacher og segir í spurningu sinni að dómarinn hafi fært „rök fyrir því að EES-samningurinn væri yfirþjóðlegur samningur sem rúmaðist sem slíkur ekki innan ákvæða Stjórnarskrár Íslands“. Baudenbacher segist vera í fríi og ekki með þessa ritgerð sína fyrir framan sig. „En ég minnist þess ekki að hafa sagt eitthvað um það hvort EES-samningurinn samræmist íslensku stjórnarskránni.“ Sé ritsmíðinni flett sést að þarna er ekki um neitt misminni að ræða. Hún snýst ekkert um stjórnarskrá Íslands. Niðurstaða EFTA-dómstólsins í málinu sem Baudenbacher ræðir var staðfest af Hæstarétti Íslands sem ber að virða stjórnarskrána.

Fyrir alþingi liggur tillaga til þingsályktunar vegna þriðja orkupakkans þar sem breyta þarf orkulögum til að auka sjálfstæði Orkustofnunar til neytendaverndar. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að framkvæmd á reglugerð 713/​2009 sé frestað. Blaðamaðurinn spyr: „Þekkirðu einhver fordæmi þess að löggjöf frá Evrópusambandinu hafi verið innleidd í gegnum EES-samninginn með þessum hætti af öðru EFTA/​EES-ríki?“

Dómarinn fyrrverandi svarar:

„Ég held ekki að þetta skipti neinu máli. Það sem máli skiptir frá sjónarhóli íslensks fullveldis er að reglugerð 713/​2009 sem liggur til grundvallar ACER [Orkustofnun Evrópusambandsins] var aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Það eru engar undanþágur frá reglunum. En reglurnar eiga aðeins við ef og þegar Alþingi segir já. Enginn getur neytt Ísland til þess að tengjast. Það er enginn lagalegur grundvöllur fyrir því, ekki í EES-samningnum og ekki í þriðja orkupakkanum sjálfum. Það er, að mínu áliti, óhugsandi að ESA muni vefengja innleiðingu reglugerðarinnar.“

Í þessum orðum felst að óhugsandi sé að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, véfengi hvernig staðið er að þessu máli af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þar með er óhugsandi að til skaðabótamáls komi á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir tilstilli ESA.

Ritgerð sinni í Tímariti lögfræðinga árið 2007 lýkur Carl Baudenbacher á þessum orðum:

„Að mínu mati er ekki nauðsynlegt að svara spurningunni um hvort yfirþjóðleg einkenni hafi verið til staðar frá upphafi eða hvort þeim hafi verið bætt við samninginn af EFTA-dómstólnum. Aðalatriðið er að EES-samningurinn er í raun yfirþjóðlegur samningur.“

Þetta eru ekki ný sannindi fyrir þá sem komu að samþykkt laganna um EES-samninginn á alþingi í janúar 1993. Þá var einmitt kannað hvort valdaframsalið sem í EES-samningnum fólst bryti í bága við stjórnarskrána. Niðurstaðan varð að svo væri ekki. Þetta hefur ekki breyst síðan og ekkert valdaframsal felst í þriðja orkupakkanum.