11.6.2017 11:18

May tapaði umboðinu til harðrar ESB-úrsagnar

Eftir kosningarnar nýtur May ekki meirihluta á breska þinginu án stuðnings smáflokks frá Norður-Írlandi og Íhaldsmenn unnu kosningasigur í Skotlandi undir forystu Ruth Davidson sem vill tryggja að Bretar hafi áfram aðgang að innri markaði ESB.

Hvað eftir annað hafa Bretar verið minntir á það undanfarin ár að Sameinaða konungdæmið – United Kingdom – er myndað af Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi. Til að halda því sameinuðu þarf að taka tillit til hagsmuna allra hluta ríkisins. Skotar felldu síðsumars 2014 að slíta konungdæminu og lýsa yfir sjálfstæði.

Skotar eru hlynntari aðild að ESB en Englendingar eins og birtist í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni sumarið 2016. Norður-Írar vilja ekki að úrsögnin úr ESB leiði til þess að landamæri milli ESB og ekki-ESB verði til á milli Norður-Írlands og Írska lýðveldisins.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, boðaði um miðjan apríl til þingkosninga í Bretlandi fimmtudaginn 8. júní til að styrkja samningsstöðu sína gagnvart ESB. Næðust ekki samningar um það sem á ensku kallast hard Brexit yrði ekkert samið og Bretar sigldu sína leið samningslausir.


Eftir kosningarnar nýtur May ekki meirihluta á breska þinginu án stuðnings smáflokks frá Norður-Írlandi og Íhaldsmenn unnu kosningasigur í Skotlandi undir forystu Ruth Davidson sem vill tryggja að Bretar hafi áfram aðgang að innri markaði ESB.

Að May hafi umboð breska þingsins til að fylgja stefnunni um hard Brexit er ólíklegt, vægt til orða tekið.

Hvað eftir annað hef ég lýst þeirri skoðun að skynsamlegasta leiðin fyrir Breta sé að sækja um aðild að EFTA og tengjast innri markaði ESB með EES-samningnum. Að þessi leið verði reynd sýnist líklegri eftir þingkosningarnar.

Christopher Booker, dálkahöfundur The Telegraph, segir í blaðinu í dag að hann hafi lengi barist fyrir úrsögn Breta úr ESB. Nú sjái hann eftir nákvæma athugun og 25 ára skrif um tengsl Breta við ESB að best sé að gera það með aðild að EES, það tryggi tvennt aðild að innri markaðnum og samheldni innan Sameinaða konungdæmisins.

Við höfum í rúm 20 ár verið aðilar að EES-samningnum. Réttmætt er að hraðferð við að innleiða frelsi í fjármálaviðskiptum og bankastarfsemi kom okkur illilega í koll. Kunni menn ekki að nýta sér nýfengið frelsi getur það reynst dýrkeypt. Kostirinir við aðild eru mun meiri en gallarnir.

Fjölgun flugfélaga sem leggja leið sína til Íslands og þar með fjölgun ferðamanna hefði til dæmis ekki orðið með sama hætti, ættum við ekki aðild að sameiginlegum evrópskum reglum – á grunni EES-samningsins – um flugöryggi.

Það er einfaldlega glannaskapur eða þekkingarleysi að láta eins og Íslendingar væru betur settir utan EES.