4.3.2021 9:48

Máttleysi ESB

Stjórnir Austurríkis og Danmerkur sætta sig ekki við að þjóðir þeirra gjaldi fyrir máttleysi Brusselvaldsins.

Allt varðandi COVID-19-faraldurinn vekur umræður og ólík sjónarmið eru kynnt til sögunnar. Aldrei fyrr hefur verið tekist á við svo skæðan heimsfaraldur í krafti þeirrar þekkingar og tækni sem nú setur svip á líf okkar. Á skemmri tíma en nokkru sinni tókst að framleiða bóluefni gegn vágestinum. Þunginn í baráttunni við hann með nálarnar á lofti eykst dag frá degi. Nota má gagnsóknina sem mælikvarða á innri styrk ríkja.

Á Vesturlöndum hafa Ísraelar, Bretar og Bandaríkjamenn tekið forystu í bólusetningum. Joe Biden Bandaríkjaforseti greip á dögunum til laga sem sett voru fyrir um 70 árum, á tíma Kóreustríðsins, sem gefur forsetanum heimild til að skipa stórfyrirtækjum að sameina krafta sína í þágu þjóðaröryggis. Það verður nú gert við framleiðslu og dreifingu bóluefnis í Bandaríkjunum.

Evrópusambandið (ESB) reynist ótrúlega máttlaust á þessari ögurstund. Nú hafa ríkisstjórnir tveggja ríkja innan þess, Austurríkis og Danmerkur, ákveðið að leita samstarfs Ísraela um framleiðslu bóluefnis. Stjórnirnar sætta sig ekki við að þjóðir þeirra gjaldi fyrir máttleysi Brusselvaldsins.

Einn afsakana innan ESB fólst í rangfærslum um sænsk-breska bóluefnið Oxford-AstraZeneca. Fullyrt var með óljósum rökum og dreifingu falsfrétta í þýskum fjölmiðlum að þetta bóluefni dygði ekki fyrir 65-ára og eldri.

Angela Merkel Þýskalandskanslari blés á þetta allt miðvikudaginn 3. mars og samþykkti fyrir sitt leyti að bóluefninu mætti sprauta í 65-ára og eldri. Sagði kanslarinn að nýlegar rannsóknir sýndu að efnið mætti nota fyrir alla aldurshópa.

Frakkar höfðu stigið þetta skref fyrr í vikunni og Belgar ætla einnig að stíga það. Merkel sagði einnig að Þjóðverjar færu að fyrirmynd Breta og ætluðu að lengja bilið milli fyrri og síðari bólusetningar til að sem flestir fengju upphafssprautuna.

Nú hafa aðeins 5% Þjóðverja verið bólusettir. Um 20 milljónir Breta, um 30% þjóðarinnar, hafa hins vegar verið bólusettir með Oxford-AstraZeneca.

_117352102_714e141b-9aed-4f22-913f-3a2d8cb6162dBBC gerði þetta spjald sem sýnir samanburð milli einstakra bóluefna. Þarna má sjá nöfn og þjóðerni framleiðenda, grunngerð bóluefnanna, hve marga skammta þarf og geymsluaðferð og geymslutíma.

Af óskiljanlegum ástæðum ákváðu íslensk stjórnvöld að hengja sig aftan í ESB bæði við kaup á bóluefnum og notkun þeirra. Hér hefur Oxford-AstraZeneca til dæmis aðeins verið notað fyrir þá sem eru yngri en 65 ára.

Í Morgunblaðinu í dag (4. mars) boðar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnubreytingu varðandi ESB-tenginguna. „Við höldum áfram í samstarfinu eins og raunar flest önnur ríki eru að gera, en það er ekkert sem hindrar okkur í að ræða við aðra framleiðendur,“ segir forsætisráðherra.

Hér er að sjálfsögðu um pólitíska ákvörðun að ræða og þar á ríkisstjórnin og forsætisráðherra lokaorðið. Hún vísar meðal annars til ákvarðana dönsku ríkisstjórnarinnar máli sínu til stuðnings. Nú er spurning hvort Katrín fari ekki að fordæmi Merkel, varkárasta stjórnmálamanns heims, og segi að eldri en 65-ára megi fá Oxford-AstraZeneca-bóluefnið í stað þess að vera vísað frá Laugardalshöll vegna skorts á bóluefni.