Markvissar aðgerðir stjórnvalda
Á sama tíma og þessi markvissu skref eru stigin fer Drífa Snæland, forseti ASÍ, af stað og kvartar undan skorti á samráði við sig! Sólveig Anna tekur undir þann söng.
Samningar tókust aðfaranótt þriðjudags 10. mars milli Eflingar og Reykjavíkurborgar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist undrandi á því í ljósi niðurstöðunnar að Efling hafi talið nauðsynlegt að efna til nokkurra vikna verkfalls til að ná henni fram. Ekkert efni hafi verið til slíkra aðgerða miðað við afstöðu samninganefndar borgarinnar.
Borgarstjóri áréttar þannig enn og aftur að um pólitíska aðgerð af hálfu sósíalistans Sólveigar Önnu Jónsdóttur Eflingarformanns hafi verið að ræða. Sólveig Anna lætur hins vegar eins og upphrópanir hennar og verkfallsvopnið hafi skilað betri niðurstöðu en hún vænti. Hún og Ævar Örn Jósepsson, næturfréttamaður ríkisútvarpsins, boðuðu kampakát að morgni þriðjudags að Sólveig Anna hefði vegið að lífskjarasamningnum. Hún segir í Fréttablaðinu miðvikudaginn 11. mars:
„En það sem gerði þetta á endanum svo ótrúlega skemmtilegt, gefandi og merkilegt var að samninganefndin var samstíga, og að sjá baráttuanda trúnaðarmanna sem við hittum á hverjum morgni og andinn á baráttufundum. Meira að segja eftir að þetta dróst á langinn og þrýstingur um að semja jókst.“
Þetta var sem sagt pólitísk og félagsleg uppákoma að lokum hjá formanni Eflingar.
Ríkisstjórnin kynnti þriðjudaginn 10. mars ramma aðgerða sem gripið verður til stig af stigi á næstunni til að létta undir með þeim sem verða fyrir verstum búsifjum vegna kórónaveirunnar.
Strax að morgni miðvikudags 11. mars birtist stefna stjórnvalda í framkvæmd þegar peningastefnunefnd seðlabankans flýtti fundi sínum um viku og tilkynnti að honum loknum að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um hálft prósentustig. Meginvextir seðlabankans verða því 2,25 prósent og hafa lækkað um 2,25 prósentustig frá því í maí í fyrra. Þá verður meðaltalsbindiskylda innlánsstofnana lækkuð úr einu prósenti niður í núll prósent. Föst bindiskylda verður áfram eitt prósent.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kynnir lækkun stýrivaxta. (Mbl. is/Kristinn Magnússon.)
Á sama tíma og þessi markvissu skref eru stigin fer Drífa Snæland, forseti ASÍ, af stað og kvartar undan skorti á samráði við sig! Sólveig Anna tekur undir þann söng í samtali við ríkisútvarpið. Kvartanirnar skila því einu að viðkomandi fá um sig fréttir sem draga athygli frá miklu gildi boðaðra aðgerða fyrir umbjóðendur verkalýðsleiðtoganna. Að halda atvinnufyrirtækjum á floti er ekkert einkamál stjórnenda þeirra og stjórnmálamanna heldur snertir allan þorra landsmanna.
Á mbl.is er 11. mars haft eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra:
„Við höfum aldrei verið eins vel undirbúin undir áfall og núna. Við lentum í áfalli fyrir um 10 árum síðan. Við höfum byggt upp allt kerfið í því augnmiði að geta þolað annað áfall. Þess vegna erum við með 800 milljarða gjaldeyrisforða og þess vegna erum við með banka með eiginfjárhlutföll yfir 20%. Það eru hundruð milljarða í eigin fé inn í bankakerfinu. Þess vegna hefur ríkið lagt áherslu á að greiða niður skuldir. Við erum mjög vel undirbúin til þess að bregðast við.“
Það er krafti þessarar góðu stöðu þjóðarbúsins sem ríkisstjórnin tekur meginákvarðanir sínar. Um útfærslu einstakra ákvarðana fer eftir efni þeirra. Að halda að ASÍ eða aðrir verði settir þar til hliðar er ímyndun. Slíkar ímyndanir kunna hins vegar að ráða för ýmissa eins og framganga og yfirlýsingar Sólveigar Önnu undanfarnar vikur sýna.