18.10.2021 9:59

Marklausar sóttvarnir

Lagi sóttvarnayfirvöld sig ekki að nýrri tækni til eftirlits, nýjum lyfjum, eigin fyrirheitum á fyrri stigum og þreytu á stöðugri afskiptasemi þeirra stuðla þau að eigin markleysi til langrar framtíðar.

Óttinn við að losa um hömlur vegna farsóttarinnar grafa undan trausti í garð sóttvarnayfirvalda. Þetta sést best á því að krafan um að bera grímur er almennt höfð að engu.

Þeir sem sóttu Arctic Circle – Hringborð norðursins – fengu meðal fundargagna tvær grímur sem höfðu verið sérhannaðar í tilefni af viðburðinum. Vissulega voru einhverjir sem báru grímur en yfirgnæfandi meirihluti fólks í Hörpu gekk um og sat fundi án þess að bera grímu.

Sé keyptur miði á kvikmyndasýningu á netinu stendur þar skýrum stöfum að 16 ára og eldri skuli bera grímu í kvikmyndahúsinu. Þegar þangað er komið fer einstaka maður að þessum fyrirmælum og ekkert er gert til að tryggja að þeim sé fylgt.

Hér hefur svo oft verið hvatt til þess að grímuskyldan sé afnumin að það skal ekki endurtekið. Gríman er í raun horfin nema kannski á sjúkrahúsum, í læknamiðstöðvum og heilsugæslustöðvum.

Á norðurslóðafundinn í Hörpu fékk enginn að koma nema hann sýndi að innan 48 stunda hefði hann farið í covid-hraðpróf. Fundurinn stóð lengur en það og í neðri kjallara Hörpu við inngang úr bílakjallara var unnt að fara í slíkt próf án þess að greiða fyrir það. Með framvísun strikamerkis fékk fundargestur armband sem dugði ásamt nafnspjaldi til að komast upp á efri hæðir Hörpu.

Engar fréttir hafa borist af smiti vegna komu um 1.300 manna úr öllum heimshornum á þennan fund eða hvort við hraðpróf í Hörpu fannst eitthvert smit.

1212255Við hraðpróf er sýni tekið úr nefi (mynd; mbl.is).

Hraðpróf eru örugglega vænlegri til árangurs en grímuskyldan beiti sóttvarnayfirvöld sér áfram gegn frelsi borgaranna. Innan hálftíma lá niðurstaða í hraðprófi fyrir í Hörpu. Það kallar á tímastjórnun af hálfu þess sem undir prófið gengur, sé hann að fara á viðburð þar sem þess er krafist. Við inngang verður að fylgja kröfunni eftir annars er hún marklaus eins og krafan um grímuskyldu.

Rök sóttvarnayfirvalda fyrir inngripi þeirra verða sífellt þynnri. Að með sóttvörnum sé Landspítalanum hlíft fellur að sífelldum fréttum ríkisútvarpsins um vandræði á bráðamóttöku þótt þau megi rekja til annars en farsóttarinnar.

Lyfjafyrirtækið Merck býður nú lyfið Molnupiravir, pillu sem sjúklingar taka heima hjá sér. Tilraunir á fólki í miklum áhættuhópum sýna að pillan minnkar um helming líkur á innlögn eða dauða þessa fólks sé hún tekin skömmu eftir að það smitast.

Miklar vonir eru bundnar við Merck-pilluna í löndum þar sem hlutfall bólusettra er mjög lágt. Það á ekki við um Ísland þar sem hlutfallið er með því hæsta í heimi og hærra en í löndum þar sem sóttvarnayfirvöld leyfa þjóðlífinu að dafna án boða og banna þeirra.

Lagi sóttvarnayfirvöld sig ekki að nýrri tækni til eftirlits, nýjum lyfjum, eigin fyrirheitum á fyrri stigum og þreytu á stöðugri afskiptasemi þeirra stuðla þau að eigin markleysi til langrar framtíðar.