2.2.2020 10:44

Margt líkt með vanda BBC og RÚV

Þess verður minnst á árið 2022 að 100 ár eru frá því að BBC kom til sögunnar (RÚV er 90 ára í ár). Charles Moore segir að enginn forstjóri geti tryggt að einokun BBC haldi fram yfir 100 ára aldurinn.

Charles Moore lauk í fyrra við þriggja binda ævisögu Margaret Thatcher sem hlotið hefur góðar undirtektir. Thatcher ákvað sjálf að Moore skyldi rita ævisögu sína. Moore var á sínum tíma ritstjóri vikuritsins The Spectator og einnig dagblaðsins The Daily Telegraph. Hann studdi brexit eindregið í dálkum sem hann skrifar í bæði þessi blöð.

Í Spectator skrifar hann um allt milli himins og jarðar. Hann minnir til dæmis oft á að hann sé kaþólskrar trúar. Þá er hann eindreginn andstæðingur þess að refaveiðar séu bannaðar í Bretlandi. Auk þess er hann mjög gagnrýninn á breska ríkisútvarpið BBC. Átti til dæmis lengi í útistöðum við yfirvöld vegna þess að hann neitaði að greiða afnotagjald af sjónvarpi vegna íbúðar sem hann átti í London (heimili hans er í Sussex) þar sem hann hefði ekkert sjónvarpstæki þar.

BBctÁ BBC ríkir svipað ástand nú eins og ríkti á ríkisútvarpinu (RÚV) eftir að Magnús Geir Þórðarson sagði af sér sem útvarpsstjóri áður en ráðningartíma hans lauk. Tony Hall, forstjóri BBC, sagði starfi sínu nýlega lausu þótt ráðningartíma hans sé ekki lokið. Charles Moore þótti rétt að skýra frá því í Spectator undir janúarlok að hann ætlaði ekki að nýta sér brexit-bylgjuna til að sækja um forstjórastöðuna. Hann væri ekki kona og hefði engin áform um að verða það! Með öðrum orðum talið er líklegt að kona verði næst valin til að stýra BBC.

Vikum saman ólu starfsmenn RÚV á ótta við að sjálfstæðiskona yrði ráðin útvarpsstjóri. Til að fæla stjórn RÚV frá því boðaði Eiríkur Guðmundsson dagskrárgerðarmaður meira að segja byltingu yrði niðurstaðan á þann veg. Hann starfar áfram sem óhlutdrægur, ríkisráðinn dagskrárgerðarmaður.

Þess verður minnst á árið 2022 að 100 ár eru frá því að BBC kom til sögunnar (RÚV er 90 ára í ár). Charles Moore segir að enginn forstjóri geti tryggt að einokun BBC haldi fram yfir 100 ára aldurinn. Tæknin dugi ekki til þess og hugmyndin að baki ríkisreknu útvarpi hafi gengið sér til húðar. Skrifræði sé óvinur sköpunar. BBC verði aðeins skrifræði.

Rod Liddle er einnig dálkahöfundur í Spectator og fyrrverandi þáttarstjórnandi hjá BBC. Hann sagði eftir að Tony Hall sagði af sér að undir forystu hans hefði BBC flotið lengra og lengra frá áhugamálum og gildum fólksins sem stæði að baki kostnaði við rekstur ríkisútvarpsins. Ekki væri unnt að kalla BB vinstri sinnað, alls ekki í fjármálum og efnahagsmálum. Á hinn bóginn væri það vonlaus bergmálshellir og starfsliðið liti alls ekki á sig sem hlutdrægt heldur teldi það sig einfaldlega rétt fyrir sér, það hefði varla nokkuð samband við almenna borgara sem væri algjörlega andsnúnir því sem BBC-fólkið hefði á heilanum. Mikill meirihluti fólks væri almennt ekki sammála viðhorfi BBC til heimsins. Eina leiðin til að jarðtengja BBC væri að gera stöðina að áskriftarstöð. Þá neyddust starfsmennirnir til að taka tillit til áheyrenda og áhorfenda með meiri fjölbreytni, ekki vegna kyns og litarháttar heldur áhuga þeirra á stjórnmálum og menningu.

Stefán Eiríksson, nýráðinn útvarpsstjóri, sat fyrir svörum í Kastljósi á dögunum. RÚV-starfsmaðurinn minnti á að nýlega hefði 450 manns verið sagt upp störfum á BBC. Greinilegur léttir sást þegar Stefán blés á allt slíkt og fór lofsamlegum orðum um starfsmenn RÚV.