7.5.2022 13:11

Margnota leikskólaloforð Dags B.

Þetta kosningaloforð endist frábærlega vel. Börnin sem fengu það fyrst eru mörg í 10. bekk grunnskóla núna.

Þegar fulltrúar smáflokkanna í meirihluta borgarstjórnar og fjölmiðlatalsmenn þeirra í ræða um Sjálfstæðisflokkinn, prófkjör hans og sjónarmið þeirra sem skipa listann er gjarnan talað glottandi um að ekki séu nú allir sammála um allt á listanum. Ekki sé unnt að kjósa hann vegna þess.

Auðvitað eru ekki allir sammála um allt innan Sjálfstæðisflokksins og leitað er málamiðlana til að sætta ólík sjónarmið. Málamiðlunin er í anda sameiginlegra meginskoðana og staðið er við gert samkomulag. Þeir sem vilja ekki málamiðlun verða stundum að flokksbroti eins og varð um árið með stofnun Viðreisnar í þágu aðildar að ESB. Aðildin varð undir í Sjálfstæðisflokknum sem mótaði þá stefnu að ekki skyldi sækja um hana nema þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi stefna ræður nú hjá öllum flokkum. Á hinn bóginn er enginn meirihlutastuðningur á alþingi við að virkja hana. Ekki verður efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema meirihluti þingmanna vilji. Málum er ekki þannig háttað eftir þingkosningarnar 25. september 2021.

Þegar litið er til þeirrar gagnrýni að ekki sé unnt að treysta Sjálfstæðisflokknum fyrir stjórn borgarinnar vegna þess að þar séu menn ekki sammála um allt er vert að minnast þess hverjir halda þessu helst á loft.

1188092mbl.is/Eggert Jóhannessonn

Fulltrúar smáflokkanna og flokksbrotanna sem gera það vita vel að þeir komist ekki til áhrifa í borgarstjórn Reykjavíkur nema þeir komi sér saman um meginmál. Vegna slíkra málamiðlana undir forystu Samfylkingarinnar falla mörg stórmál út af dagskrá strax í upphafi samstarfs flokkanna, annars hefðu þeir ekki náð saman.

Ólík sjónarmið flokkanna leiða til aðgerðaleysis, borgin hættir að virka. Þetta má til dæmis sjá sé horft til leikskólanna.

Í Morgunblaðinu í dag (7. maí) segist Líf Magneudóttir, oddviti VG, „ekki skilja hvaða hugmyndfræði liggi á bak við kosningaloforð Viðreisnar um að fella niður skólagjöld fyrir fimm ára leikskólabörn“. Finnst henni að með þessu sé börnum mismunað eftir aldri. Í fréttinni segir að fimmtudaginn 5. maí (9 dögum fyrir kosningar) hafi Líf lagt fram tillögu í borgarráði „um að borgarstjóra yrði falið að hefja undirbúning þess að innheimtu leikskólagjalda yrði hætt í Reykjavík“. Tillögunni var frestað. Vonar Líf að hún fái farveg eftir kosningar!

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, formaður borgarráðs, sló tillögunni út af borðinu, hún væri „hápólitísk“. Þriðja hljólið í meirihlutanum, Píratar, tala fyrir „sex tíma gjaldfrjálsum leikskóla“. Það yrði of dýrt fyrir borgina að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla núna.

Líf segir að hún hafi árangurslaust reynt að koma gjaldfrjálsum leikskóla inn í meirihlutasáttmálann í upphafi kjörtímabils 2018.

Í frétt Morgunblaðsins er ekki skýrt frá skoðun Samfylkingarinnar. Fyrir kosningar 2006 sagði í kosningastefnuskrá Dags B. Eggertssona: „Ljúkum við að gera leikskólana gjaldfrjálsa.“

Þetta kosningaloforð endist frábærlega vel. Börnin sem fengu það fyrst eru mörg í 10. bekk grunnskóla núna. Komist Dagur B. og smáflokkanir til valda eftir 14. maí má nota leikaskólaloforðið að nýju 2026.