20.3.2017 15:43

Mánudagur

Meginfréttin í dag er að Kaupþing seldi að kvöldi sunnudags 19. mars tæplega 30% hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna. Kaupendur eru fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut.

Meginfréttin í dag er að Kaupþing seldi að kvöldi sunnudags 19. mars tæplega 30% hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna. Kaupendur eru fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut. Að sjóðunum standa lífeyrissjóðir, háskólasjóðir og einkafjárfestar.Eftir kaupin á Kaupþing 57,9% í Arion banka, ríkissjóður 13%, og nýju fjárfestarnir samtals 29,2%. Fjárfestarnir hafa einnig kauprétt að 21,9% hlut til viðbótar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir réttilega að kaupin séu „styrkleikamerki“ fyrir íslenskt fjármálakerfi. Aðeins tók eina viku frá því að tilkynnt var um afnám haftanna þar til þessi viðskipti eru tilkynnt. Á níu vikum frá því að ríkisstjórnin var mynduð hafa verið stigin stærri skref við að umbreyta íslensku efnahags- og fjármálakerfi en undanfarin átta ár þegar Samfylkingin, vinstri-grænir (VG) og Framsóknarflokkurinn sátu við stjórnvölinn.

Staða Samfylkingarinnar er þannig núna að enginn sér í raun ástæðu að leita álits talsmanna hennar vegna ofangreindra viðskipta. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur allt á hornum sér vegna kaupendanna. Þeir nýta sér reglur sem mótaðar voru í stjórnartíð Framsóknarmanna og lúta eftirliti lögum samkvæmt. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, amast hins vegar við því að erlendu kaupendurnir nýti sér gildandi reglur og kaupi 9,9% til að sæta ekki eftirliti sem nær til þeirra sem eiga 10% og meira.

Sérkennilegt er að forystumenn í stjórnmálum ali á tortryggni í garð fyrirtækja á þann veg sem Sigmundur Davíð og Katrín gera þegar fyrirtækin fara einfaldlega að íslenskum lögum og sæta lögbundnu innlendu eftirliti. Viðbrögðin skýra ef til vill hvers vegna höftin voru ekki afnumin fyrr. Samfylkingin beið eftir ESB-aðild. VG vildi geta hlutast til um viðskipti sem nú eru frjáls. Framsóknarmenn töldu sig ekki geta treyst neinum, það reyndu örugglega allir að plata þá.

Katrín hefur einnig lagt áherslu á nauðsyn þess að vita hverjir séu raunverulegir kaupendur þessa 29,2% hlutar í Arion-banka. Merkilegt er að eftirmaður Steingríms J. Sigfússonar á formannsstóli VG skuli viðra þessa kröfu í ljósi leyndarhyggjunnar sem einkenndi allar ákvarðanir Steingríms J. sem fjármálaráðherra um einkavæðingu bankanna á árinu 2009.