2.11.2020 11:32

Mannréttindi í Eflingu

Starfsöryggi íslenskra eða erlendra starfsmanna á skrifstofu Eflingar í valdatíð Sólveigar Önnu Jónsdóttur og félaga er ekkert.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók til máls um mannréttindi útlendinga á Facebook um helgina. Hún sagði meðal annars:

„Ég er hér að segja það sem öll vita og er sannleikurinn: Á Íslandi er aðflutt verkafólk aðeins virði þess sem hægt er að ná af þeim í formi vinnu og skatta. Það hefur ekki raunveruleg mannréttindi. Það má ekki kjósa og hefur ekkert platform [svo!]. Það er jaðarsett að því sem næst öllu leiti [svo!].“

1143662Sólveig Anna í baráttuhug (mynd mbl.is).

Þetta leiðir hugann að frétt í Fréttablaðinu fyrir rúmu ári, 2. október 2019, þegar sagt var frá því hvernig Sólveig Anna og sósíalistarnir félagar hennar við stjórnvölinn í Eflingu fóru með Maxim Baru sem kom frá Kanada til að stjórna verkfallsaðgerðum Eflingar fyrri hluta árs 2019. Hann var rekinn umyrðalaust úr starfi sviðsstjóra félagssviðs Eflingar skömmu fyrir undirritun kjarasamninganna sem gerðir voru eftir verkfallsaðgerðirnar. Maxim Baru sagðí í Fréttablaðinu:

„Ég var rekinn án útskýringa og án þess að fá áminningu. Það var talað um trúnaðarbrest, sem ég veit ekki hver á að vera. Síðan fékk ég að vita að ástæðan var að Sólveigu Önnu [Jónsdóttur, formanni Eflingar] fannst stafa einhver ógn af mér í valdabaráttunni. Vænisýkin var orðin algjör.“

Félagssvið Eflingar var að sögn blaðsins stofnað haustið 2018 og Kanadamaðurinn Maxim Baru, ráðinn sviðsstjóri. Hann var að eigin sögn ráðinn til að skipuleggja verkfallsaðgerðir félagsins. Var hann í framlínunni í verkfallsaðgerðum Eflingar þar til hann var rekinn. Í Fréttablaðinu sagði hann:

„Ég var á góðum launum, vann náið með forystunni til að byrja með og skrifaði meira að segja hvað Sólveig Anna átti að segja um verkföllin. Síðan hvarf hún alveg inn í kjaraviðræðurnar. Á meðan var ég með hóp starfsmanna að vinna hörðum höndum að skipulagi. Við vorum hópurinn sem fór á vinnustaði og töluðum pólsku og sýndum félagsmönnum hvernig þeir gátu kosið.“

Christina Milcher, á félagssviði Eflingar, og Eliasz Robakjewicz, í verkfallsteyminu, sögðu að Maxim hefði verið kallaður á fund nokkrum dögum fyrir undirritun kjarasamninganna en ekki fengið að hafa neinn með sér. „Hann var rekinn, okkur var bara tilkynnt um þetta án málalenginga,“ sagði Christina.

Sólveig Anna ritaði Maxim uppsagnarbréf dagsett 29. mars 2019, þar er hann skýringarlaust leystur varanlega frá störfum frá og með þeim degi. Í bréfi til starfsmanna félagssviðs dagsettu 31. mars 2019 talar Sólveig Anna um trúnaðarbrest milli sín og Maxims. „Eina lausnin [hafi verið] að reka hann frá Eflingu.“

Í bréfi sem Christina sendi Sólveigu Önnu, Viðari Þorsteinssyni framkvæmdastjóra og Berglindi Rós Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skrifstofu- og mannauðssviðs Eflingar, 4. apríl segir hún skilning margra að brottrekstur Maxims stafi af valdabaráttu sem gæti komið félaginu illa. „Stuttu síðar fundaði hún með Viðari og fór í kjölfarið í leyfi,“ segir Fréttablaðið.

Starfsöryggi íslenskra eða erlendra starfsmanna á skrifstofu Eflingar í valdatíð Sólveigar Önnu Jónsdóttur og félaga er ekkert. Geðþótti formannsins ræður þar en ekki mannréttindi.