11.10.2024 15:36

Málþing um landbúnað

Ég tel að þar sé um að ræða styrkingu á innlendum fyrirtækjum til að standast aukna erlenda samkeppni sem má rekja til niðurfellingar tolla á landbúnaðarvörum.

Dagur landbúnaðarins er í dag (11. október) og efndu Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði til málþings að morgni hans á Hótel Selfossi. Sat ég þar í pallborði með Margréti Gísladóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, Lárusi M. K. Ólafssyni frá Samtökum iðnaðarins og Þórarni Inga Péturssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Jón Bjarnason, oddviti í Hrunamannahrepppi og fundarstjóri, stjórnaði umræðum okkar.

Áður en við settumst í pallborðið flutti dr. Margrét Einarsdóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, ræðu um gullhúðunina svonefndu, það er þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra og setja íþyngjandi ákvæði umfram þær lágmarkskröfur sem gerðar eru í EES-gerðum við innleiðingu.

Þetta skýrði prófessorinn nánar með þessum lykilorðum: Ítarlegri reglur umfram lágmarkskröfur; útvíkkað gildissvið; nýta ekki undanþágur; viðhalda strangari skilyrðum í lögum, strangari viðurlög, innleiða löggjöf of snemma.

IMG_1032

Ég lagði út af því að undanþágur væru ekki nýttar.

Vegna kynna minna af landbúnaðarmálum við undirbúning landbúnaðarstefnu og leiða til byggðafestu í strjálbýlum sveitarfélögum hef ég áttað mig á því að hér hafa ekki verið nýtt ýmis ákvæði í EES-reglum sem skapa bændum meira svigrúm til heimavinnslu og markaðssetningar eigin afurða fyrir utan að kröfur um að hér beri að útiloka samruna afurðastöðva eru á skjön við alla þróun annars staðar á Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu.

Þessi viðhorf voru rækilega kynnt þegar unnið var að skýrslunni Ræktum Ísland! sem lagði grunn að landbúnaðarstefnunni sem alþingi samþykkti 1. júní 2023. Í framhaldi af því var rökrétt að alþingi gerði þá breytingu á búvörulögunum að afurðastöðvar í landbúnaði yrðu undanþegnar reglum samkeppnislaga.

Ég tel að þar sé um að ræða styrkingu á innlendum fyrirtækjum til að standast aukna erlenda samkeppni sem má rekja til niðurfellingar tolla á landbúnaðarvörum.

Í tollamálum var stórt skref stigið með samningi við ESB árið 2015 sem tók gildi árið 2018 eftir að bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands höfðu dæmt íslenska ríkið til að fella niður innflutningsbann á ófrystu kjöti. Til að skapa jafnvægi og festa fæðuöryggi hér í sessi vegna þessa var að mínu mati eðlilegt að skapa aukið rekstrarlegt svigrúm fyrir afurðastöðvar íslensks landbúnaðar.

Á málþinginu á Selfossi var það nefnt að í skjóli EES gætu erlendir menn keypt bújarðir eða annað land hér. Katrín Jakobsdóttir beitti sér sem forsætisráðherra fyrir því að farið var rækilega í saumana á reglum um landakaup og liggur fyrir ítarleg skýrsla um það mál. Unnt er að setja ýmiss konar reglur til að stjórna því hverjir kaupa hér land þrátt fyrir EES-aðildina.

Ég sagði á Selfossi að mestu máli skipti að hafa skýrar reglur um landnotkun og skyldur til að fylgja þeim. Á þann veg gætu sveitarfélög stjórnað landnýtingu og skyldað landeigendur til að vernda til dæmis dýrmætt landbúnaðarland sem aðeins ætti eftir að verða dýrmætara.