4.10.2024 14:11

Málstofa um NATO - leynd á Kárhóli

Leitað er með leynd leiða til að bjarga umgjörð kínversku „vísindarannsóknanna“ á Kárhóli í Þingeyjarsveit frá gjaldþroti.

Að morgni föstudagsins 4. október stóðu sendiráð Noregs og Kanada ásamt Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fyrir málstofu í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns á efnismikilli bók sem Routlege-forlagið hefur gefið út um NATO 75 ára.

Cecilie Willoch, sendiherra Noregs, setti málþingið en Jenny Hill, sendiherra Kanada, sleit því. Ritstjóri bókarinnar, John Andreas Olsen, prófessor við Norsku varnarmálastofnunina, og Sarah Tarry, forstjóri deildar NATO sem fjallar um varnarstefnu og framkvæmd hennar, kynntu efni bókarinnar. Ég sagði nokkur orð og síðan settumst við þrjú í pallborð undir stjórn Piu Hansson, forstjóra Alþjóðamálastofnunar.

IMG_5770Pia Hansson stjórnar pallborðsumræðum, f.v. John Andreas Olsen, Sarah Tarry og Björn Bjarnason.

IMG_5775Gestir málstofunnar (myndir: Heiða Ragney Viðarsdóttir, Alþjóðamálastofnun HÍ).

Truflun var í upphafi þegar Palestínu- og Hamasvinurinn Magga Stína hrópaði ókvæðisorð um NATO. Sagði hún NATO trufla sig öllum stundum og steytti hnefann til stuðnings Palestínu áður en hún hvarf á brott að ósk Piu.

Bókin er mikil að vöxtum, rúmlega 500 bls. Ég hef farið lauslega yfir nokkra kafla hennar og er fróðlegt að rifja upp atburði sem margir töldu á sínum tíma að yrðu til að rjúfa samstarf þjóðanna í NATO.

Til dæmis má nefna þegar Helmut Schmidt, kanslari Þýskalands, flutti árið 1977 ræðu á ársþingi Alþjóðamálastofnunarinnar í London (IISS) og varaði við hættunni af því að Rússar sætu einir að miðladrægum kjarnaflaugum (SS-20) í Evrópu og hefðu meginlandið og Bretland í eins konar gíslingu. Hvatti hann til andsvara af hálfu NATO með bandarískum kjarnavopnum. Lagði hann hart að sér til að fá samþykki við því að bandaríski herinn fengi að vígvæðast með svonefndri nifteindasprengju í Þýskalandi og taldi sig gera það í samræmi við vilja Jimmys Carters, þáv. Bandaríkjaforseta, sem fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir. Carter snerist hins vegar hugur á einni nóttu og sat Schmidt fokreiður uppi með mikinn „pólitískan kostnað“ og trúnaðarbrest við Carter.

Síðar gerðist það þegar NATO ákvað 1979 að koma fyrir bandarískum meðaldrægum eldlaugum gegn SS-20-flaugunum í Evrópu að Sovétstjórnin stóð við bakið á svonefndum friðarhreyfingum í Evrópu til að skapa pólitísk vandræði í lýðræðisríkjunum. Nú væri slík starfsemi kölluð fjölþáttastríð. Í þessum efnum er ekkert nýtt. Pútin nýtur stuðnings í stríðinu við Úkraínumenn úr ólíklegustu áttum, meðal annars hér á landi.

Screenshot-2024-10-04-at-14.10.16

Ég nefndi vaxandi umsvif Kínverja á norðurslóðum og minnti á að andvaraleysi vegna þeirra birtist í ýmsum myndum eins og lesa mætti í frétt í Morgunblaðinu í dag (4. okt.) um að leitað væri með leynd leiða til að bjarga umgjörð kínversku „vísindarannsóknanna“ á Kárhóli í Þingeyjarsveit frá gjaldþroti.

Stjórnmálafræðingurinn Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun og framkvæmdastjóri sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory, sem er eigandi Kárhóls, segir við Morgunblaðið að fulltrúar stofnunarinnar hafi verið í viðræðum við Byggðastofnun um lyktir þessara mála.

Hann er bjartsýnn, enda sitt hvoru megin við borðið, og telur á að Byggðastofnun frestaði uppboði á Aurora Observatory nema stofnunin sæi til lands.

Þegar Reinhard er spurður hver lausnin sé segir hann „að um það ríkti trúnaður“ en í raun sé um uppgjör á skuldbindingum við Byggðastofnun að ræða.

Þetta er ólíðandi leynd um fjárhagsleg samskipti opinberrar íslenskrar stofnunar við þá sem búa í haginn fyrir rannsóknir í þágu kínverska hersins hér á landi. Málið er miklu stærra en að unnt sé að leysa það án beinna pólitískra afskipta í nafni þjóðaröryggis.