Málfar menningarvita
Það er ekki aðeins í þessum þætti menningarvita sem slettur eru áberandi heldur setja þær almennt einkum svip á umræður um menningu og listir í hljóðvarpi og sjónvarpi.
Baldur Hafstað segir í þættinum Tungutak í Morgunblaðinu laugardaginn 12. apríl:
„Í spjallþætti á föstudögum koma ungir menningarvitar saman á Rás 1 og ræða um „menningarneyslu“, „hámhorf“ og fleira í þeim dúr. Hvergi á þeirri rás sletta viðmælendur meiri ensku. Þar halda þeir sínum stress-leveli niðri; tala um „geitvei (gateway) að verkinu“, velja alternatíft; og fá konsensus í þetta; eitt er rífressing, annað obbvíos, enterteining, prídixíos, hæp, hætekk, besta anímeisjón, hjús og svaka steitment; dumpa svo og skilja pojntið og segja þúst/þveist 125 sinnum í þætti.“
Þetta eru orð í tíma töluð. Ég hlusta ekki reglulega á þennan þátt sem Baldur nefnir en þá sjaldan sem það gerist vekur málfarið undrun og að stjórnendur þáttarins eða umsjónarmenn hans skuli ekki reyna að stemma stigu við þessum einkennilega hrærigraut tungumála.
Það er ekki aðeins í þessum þætti menningarvita sem slettur eru áberandi heldur setja þær almennt einkum svip á umræður um menningu og listir í hljóðvarpi og sjónvarpi. Hvort þetta stafar af málleti, skorti á skýrleika í hugsun, virðingarleysi fyrir íslenskunni eða þyki til marks um stöðu í virðingarstiga menningarlífsins skal ósagt látið. Hvimleitt er það hver sem ástæðan er og algjörlega óþarft því að unnt er að koma öllu til skila á móðurmálinu.
Svo virðist sem enska orðið level hafi áunnið sér sess í íslensku talmáli. Fleiri en menningarspírur taka það sér í munn um hvað sem er þegar því er lýst að eitthvað hafi komist á nýtt stig.
Það er erfitt að sjá level falla að íslensku máli eins og til dæmis orðið vók (e. woke) um umdeilt viðhorf til samfélagsins eða orðið dróni (e. drone) um ómannað, fjarstýrt eða sjálfstýrt flugtæki. Reynt var að festa orðið flygildi í málinu en mistókst.
Forseti Íslands Halla Tómasdóttir flytur borðræðu í hátíðarkvöldverði Noregskonungs 8. apríl 2025 (mynd: forseti.is).
Í ávarpi forseta Íslands Höllu Tómasdóttur í hátíðarkvöldverði Haraldar V. Noregskonungs í höll hans í Osló 8. apríl 2025 komst hún svo að orði: „Eitt sinn var talað um vítisvélar en nú eru það ekki síður vélvitið og upplýsingaóreiðan sem klýfur fólk í fylkingar.“
Þarna notar forseti orðið vélvit um gervigreind. Hér hefur áður verið vakin athygli á tilvist þessa íslenska orðs og orðsins vitvél. Í íðorðabankanum er einnig orðið tölvuvit nefnt í stað gervigreindar (e. artificial intelligence).
Tungumálið er lifandi tæki sem spennandi er að nota til að takast á við það sem gerist á líðandi stundu. Það felst uppgjöf í því að flytja mál sitt fyrir íslenskum útvarpshlustendum á þann veg sem Baldur lýsir. Það er einnig dónaskapur gagnvart áheyrendum íslenskrar útvarpsstöðvar að þannig sé talað til þeirra. Stjórnendur þátta í beinni útsendingu ríkisútvarpsins eða við upptöku efnis verða að sjá til þess að töluð sé íslenska. Kæruleysi í því efni má bera saman við að útgefendur prentaðs máls hætti að gera kröfur til vandaðs frágangs á því efni sem þeir bjóða – málvillur og ritvillur flæddu yfir lesendur,
Hnignun ríkisútvarpsins vegna aðhaldsleysis birtist í ýmsum myndum. Verst er þó ef blásið er á allar ábendingar um það sem má augljóslega betur fara.