9.11.2017 12:20

Málefnalausir Píratar

Píratar létu aldrei reyna á nein málefni, hvorki í kosningabaráttunni né í stjórnarmyndunarviðræðunum. Píratar hafa ekki heldur lagt sig fram um málefnaleg störf á alþingi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, leiðtogi Pírata í stjórnarmyndunarviðræðunum, sagði á Facebook-síðu sinni í gær:

„Að gefnu tilefni er vert að taka fram að Píratar voru aldeilis ekki búnir að gefa eftir sín helstu mál í VSPB-viðræðunum. Þetta er alrangt. Við vorum vissulega lausnamiðuð og samvinnuþýð í þessum samningaviðræðum enda byggja gildi Pírata á vönduðum vinnubrögðum og gagnkvæmri virðingu en því skal haldið rækilega til haga að þessar viðræður strönduðu ekki á málefnum. Við höfðum náð góðri sátt um okkar helstu mál og er stjórnarskráin þar með talin líkt og kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi formannanna fjögurra (og formannsígilda) þegar viðræðum var slitið.

Sögur af uppgjöf Pírata eru uppspuni frá rótum.“

Þegar rýnt er í þessa yfirlýsingu sést hvorki í hvaða málefni Píratar héldu né hve langt viðræðurnar við þá voru komnar áður en upp úr þeim slitnaði. Af yfirlýsingunni má raunar ráða að undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi ekki annað verið rætt en „stóra myndin“ eins og það er gjarnan orðað núna. Innan „stóru myndarinnar“ getur allt falist, þar á meðal heitstrengingar sem ganga út á það eitt stappa stálinu í viðmælanda sinn og telja sér trú um að þessi hópur sé betri en einhver annar.

Þórhildur Sunna segir: „ Við vorum vissulega lausnamiðuð og samvinnuþýð í þessum samningaviðræðum“ enda stundi Píratar vönduð vinnubrögð og hallist að gagnkvæmri virðingu. Að þetta eigi við um Þórhildi Sunnu skal ekki dregið í efa. Varla verður sagt um flokksbróður hennar Björn Leví Gunnarsson að hann hafi verið sérstaklega lausnamiðaður eða samvinnuþýður á meðan flokkssystir hans sat fundina undir stjórn Katrínar.

Björn Leví boðaði að helst kysi hann minnihlutastjórn af því að hann vildi ekki láta binda sig við ákveðnar umsamdar lausnir. Það yrði að ráðast hverju sinni hve langt hann gengi til samvinnu.

Með þessu vó Björn Leví að grundvelli hugsanlegrar stjórnar og gaf Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, tilefni til að segja sig frá viðræðunum vegna þess hve þingfylgi slíkrar stjórnar yrði svipult.

Ekki skal dregið í efa að Píratar hefðu getað slitið þessum viðræðum um stjórnarmyndun með því að hampa einhverjum málefnum. Það hefði þó verið stílbrot miðað við málefnasnauða kosningabaráttu þeirra. Píratar létu aldrei reyna á nein málefni, hvorki í kosningabaráttunni né í stjórnarmyndunarviðræðunum. Píratar hafa ekki heldur lagt sig fram um málefnaleg störf á alþingi.


Helgi Hrafn Gunnarsson er kominn á þing á ný fyrir Pírata. Hann sat á þingi 2013 til 2016. Þegar atkvæðaskrá hans er skoðuð kemur í ljós að í 1.112 atkvæðagreiðslum treysti hann sér ekki til að taka afstöðu til mála. Þessar tölur birtust 16. október á vefsíðunni Andríki og einnig: „ En Helgi Hrafn var ekki einn Pírata um hjásetuna. Jón Þór Ólafsson sat 1.285 sinnum hjá og Birgitta Jónsdóttir treysti sér ekki til að taka afstöðu 1.074 sinnum á síðasta kjörtímabili. Samtals er þetta 3.471 hjáseta.“

Spyrja má með vísan til þessa: Finnst einhverjum líklegt að flokkur með þessa þingsögu láti stranda á málefnum við stjórnarmyndun?