15.8.2022 9:16

Malartrukkalest Suðurlands

Að einhverjum detti í hug að skipuleggja slíkan akstur malartrukka allan sólarhringinn á þessari leið vekur spurningar um hvort nokkur skynsemi búi yfirleitt að baki þessum áformum.

Friðrik Erlingsson rithöfundur á Hvolsvelli vakti laugardaginn 13. ágúst athygli Sunnlendinga og annarra á umhverfismatsskýrslu vegna efnistöku á Mýrdalssandi og vörubílaaksturs allan sólarhringinn þaðan í Þorlákshöfn, árið um kring eftir Suðurlandsvegi, sem verkfræðistofan Efla, hefur unnið fyrir framkvæmdaaðilann, Steag Power Minerals. Skýrslan er nú til umsagnar og athugasemda á vef Skipulagsstofnunar, www. skipulag.is til 26. september 2022.

G9i16qevt.1_1249897_1660554856352Þessi skýringarmynd birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2021.

Í skýrslunni metur Efla það svo að aukning umferðar og hljóðvistar vegna malartrukkanna hafi „Nokkuð neikvæð áhrif“ eða svo sem miðlungs áhrif, miðað við að flokkarnir fyrir ofan heita: „Talsverð neikvæð áhrif“ „Veruleg neikvæð áhrif“ og „Óvissa.“ Um þetta segir Friðrik: „Heilbrigð skynsemi segir að slík tröllaukin viðbót umferðar á Suðurlandsvegi hafi veruleg óvissuáhrif; í besta falli verulega neikvæð áhrif. Allt annað er fals og lygi.“

Úr kafla 5.5.5. Lýsing á áhrifum bls. 80:

„Miðað við að flutningar verði stundaðir um 280 daga á ári eru það 107 ferðir yfir sólarhringinn, eða rúmlega 3 ferðir fyrir hvern vörubíl. Unnið verður á þrískiptum vöktum svo þessar 107 ferðir dreifast yfir allan sólarhringinn, að meðaltali þýðir það ný ferð á um korters fresti allan sólarhringinn. Ein ferð þýðir fullur bíll til Þorlákshafnar og tómur til baka, það munu því vörubílar fara um veginn á um 7-8 mín fresti.“

Að einhverjum detti í hug að skipuleggja slíkan akstur malartrukka allan sólarhringinn á þessari leið vekur spurningar um hvort nokkur skynsemi búi yfirleitt að baki þeim áformum að opna vikurnámu austan og suðaustan við Hafursey skammt austan við Vík í Mýrdal. Vikurinn yrði fluttur með skipum frá Þorlákshöfn út til Evrópu, og jafnvel N-Ameríku, sem íblöndunarefni við framleiðslu á sementi. Magnið á Mýrdalssandi er talið duga í 100 ár.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir í samtali við Morgunblaðið í dag (15. ágúst) að hreppurinn leggist ekki gegn náumvinnslunni, þarna sé skilgreind náma. Miklar efasemdir séu hins vegar uppi um landflutningana. Hann bendir á að þjóðvegurinn sé lífæð ferðamennsku og vikurflutningarnir mundu hafa „verulega neikvæð áhrif“ á aðra umferð.

Friðrik Erlingsson segir:

„Heilbrigð skynsemi segir að þessari trukkaumferð megi ekki undir nokkrum kringumstæðum hleypa á Suðurlandsveg. Svo nú er það spurningin, hvort heilbrigða skynsemi sé nokkurs staðar að finna hjá þeim yfirvöldum sveitarfélaganna og landsins sem hafa með þetta mál að gera. Annars er ekki útilokað að íbúar á Suðurlandi reisi götuvígi og stöðvi alla umferð um Suðurlandsveg. Efnistakan í slíka aðgerð almennings á Suðurlandi gerir ekki kröfur um umhverfismat.“

Um leið og tekið er undir þessi orð Friðriks skal minnt á að hér á þessum stað var fyrir réttu ári vakið máls á þessum vikuráformum og þá þegar tekið undir viðvaranir Friðriks. Boðaðir þungaflutningar um Suðurlandsveg verða aldrei.