Málamiðlun um afgreiðslu þingmála
Málamiðlun á þingi næst ekki frekar en annars staðar nema báðir aðilar sjái sér hag af henni. Miðflokksmenn þurftu að komast úr sjálfheldu málþófsins og stjórnarflokkarnir að ná fram niðurstöðu mikilvægra mála.
Fulltrúar þingflokka Sjálfstæðisflokks, Birgir Ármannsson, og Miðflokks, Bergþór Ólason, náðu í gær (18. júní) samkomulagi um lyktir þess þings sem nú situr. Þar er að finna útfærslu á tillögu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti fyrir nokkrum dögum um að lokið yrði afgreiðslu allra helstu mála ríkisstjórnarinnar núna en þing kæmi saman til funda í lok ágúst til að ljúka afgreiðslu þriðja orkupakkans og mála sem tengjast honum.
Þegar tillaga forsætisráðherra lá fyrir vildu miðflokksmenn að sett yrði á laggirnar sérfræðinganefnd til að kanna málið. Það verður ekki gert en efnt verður til allt að þriggja funda í utanríkismálanefnd alþingis þar sem málið verður rætt og þá væntanlega nýjar hugmyndir miðflokksmanna í málinu en þeir létu ekkert að sér kveða við hefðbundna afgreiðslu málsins í utanríkismálanefnd í apríl og maí en hófu síðan málþófið alræmda.
Láti menn ekki atkvæði ráða er eðli þingstarfa
að leitað sé málamiðlunar til að greiða fyrir störfunum og afgreiðslu mála.
Mikill meirihluti þingmanna er hlynntur þriðja orkupakkanum, aðeins níu þingmenn
Miðflokksins, tveir þingmenn Flokks fólksins og Jón Þór Ólafsson pírati hafa lýst
sig andvíga honum, það er 12 þingmenn af 63.
Meirihlutinn hefur ekki beitt 71. gr. þingskapalaga í þessu máli frekar en öðrum málþófsmálum undanfarna áratugi. Liggur hins vegar í augum uppi að það verður gert fyrir lok þessa þings verði ekki staðið við samkomulagið frá því í gær, kjarni þess er að ljúka orkupakkamálinu á þessu þingi.
Þegar komist er að málamiðlun eins og þessari hefjast ætíð umræður um hvort annar aðili hafi haft betur en hinn. Málamiðlun á þingi næst ekki frekar en annars staðar nema báðir aðilar sjái sér hag af henni. Miðflokksmenn þurftu að komast úr sjálfheldu málþófsins og stjórnarflokkarnir að ná fram niðurstöðu mikilvægra mála. Lesendum er látið eftir að dæma hvor málstaðurinn er mikilvægari.
Morgunblaðið birtir í dag niðurstöður skoðanakönnunar fyrir Heimssýn, andstæðinga ESB-aðildar, varðandi afstöðu þjóðarinnar til framkvæmdar tveggja þátta EES-samningsins. Stóru línurnar eru að þjóðin skiptist til helminga í afstöðu til orkupakkans og innflutnings á fersku kjöti. Þá segir einnig: „um 61,3% þeirra sem afstöðu tóku fylgjandi því að Ísland fái undanþágu frá orkulöggjöf Evrópusambandsins en um 38,7% eru andvíg“.
Ekki kemur fram hvernig þessi spurning var orðuð en miðað við textann hér að ofan snýr þessi afstaða að ákvörðunum sem teknar voru um og upp úr aldamótunum og leiddar í lög með raforkulögunum árið 2003. Könnunin var hins vegar gerð um miðjan júní 2019.