8.12.2020 9:47

Magnitskjí-lög í ESB

Óhjákvæmilegt er fyrir íslensk stjórnvöld að fylgjast náið með öllu sem gert er beggja vegna Atlantshafs í krafti Magnitskjí-laga.

ESB-ríkin hafa formlega innleitt nýjar refsireglur gegn þeim sem brjóta á mannréttindum. Reglurnar eru sniðnar eftir bandarískum reglum sem þekkar eru undir heitinu Magnitsky Act – Magnitskjí-lögin í höfuðið á lögfræðingi sem rússnesk yfirvöld gengu að dauðum í skjóli Vladimirs Pútins þegar hann afhjúpaði fjársvik þeirra. Fjármálamaðurinn Bill Browder réð Magnitskjí til starfa fyrir sig í málaferlum við Kremlverja. Eftir dauða lögfræðingsins hóf Browder baráttu gegn ódæðismönnum hans.

Í skjölum ESB heita nýju reglurnar á ensku European Union Global Human Rights Sanctions Regime. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallar þær óformlega evrópsku Magnitskíj-lögin og sömu sögu er til dæmis að segja um Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.

Endanlega tóku reglurnar gildi mánudaginn 7. desember þegar utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna staðfestu þær á fundi í Brussel. Utanríkisráðherra Ungverjalands hafði dregið lappirnar í málinu en Viktor Orbán, forsætisráðherra landsins, hallar sé að Pútin þegar hann telur henta sér.

Í reglunum eru ákvæði um bann við að gefnar séu út vegabréfsáritanir fyrir einstaklinga sem eru sekir um glæpi gegn mannkyni, þrælahald, aftökur án dóms og laga, mannshvörf og ólögmætar handtökur. Jafnframt er veitt heimild til að frysta eignir þessara einstaklinga.

Þá er heimild til málsóknar gegn þeim sem bera ábyrgð á mansali, kynferðisofbeldi og þeim sem leggja stein í götu friðsamlegra funda, mál- eða trúfrelsis. Á vegum ESB verður einnig snúist gegn þeim hafa fjárhagslegan ávinning af mannréttindabrotum.

E9b9164fea696c73946cb0150cd64140-800xSergei Magnitskjí

Sætt hefur gagnrýni að orðið spillingu sé ekki að finna í neinni brotalýsingu í reglunum. Gagnrýnendur segja að þetta kunni að leiða til þess að einhverjir telji sig óhluta með illa fengið fé innan ESB. Aðrir láta í ljós ósk um að ESB fari strax að fordæmi Breta sem hafi sett sérstakar reglur gegn spillingu.

Magnitskíj-lög eru að minnsta kosti í gildi í Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og Eystrasaltslöndunum.

Bókin Eftirlýstur eftir Bill Browder kom út hér á landi 2015. Þar lýsir hann baráttu sinni gegn Kremlverjum. Yfirvöld í Moskvu hafa lýst eftir Browder og vilja draga hann fyrir rétt í Moskvu. Barátta hans er fleinn í holdi valdamanna í Rússlandi. Þeir beita sér gegn honum með öllum tiltækum ráðum. Óttast hann um líf sitt og fjölskyldu sinnar.

Óhjákvæmilegt er fyrir íslensk stjórnvöld að fylgjast náið með öllu sem gert er beggja vegna Atlantshafs í krafti Magnitskjí-laga. Þess verður að gæta að reglur hér séu ekki þess eðlis að þeir sem settir eru í bann vegna grimmdarverka og mannréttindabrota telji sig geta notið skjóls hér vegna skorts á skýru regluverki gegn þeim.