Magnaður Ríkharður III.
Oft er uppsetning og texti verka Shakespeares á þann veg að þau verða þung og fjarlæg. Ekkert slíkt háir þessari sýningu.
Sýning Borgarleikhússins á Ríkharðri III. eftir William Shakespeare í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur hlaut einróma lof gagnrýnenda Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Miðvikudaginn 23. janúar birtust einnig lofsamleg ummæli um sýninguna eftir Jakob S. Jónsson, leiklistarfræðing, á vefsíðunni Kvennablaðinu.
Sama dag og þessi umsögn birtist sat ég í þéttsetnum sal Borgarleikhússins og naut þess með aðdáun hvernig þetta magnaða verk var flutt okkur. Ég tek heilshugar undir með Jakobi S. Jónssyni þegar hann segir:
„Hjörtur Jóhann[Jónsson] hefur á tiltölulega stuttum ferli – ekki áratugur síðan hann útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ! – sýnt og sannað að hann er í hópi okkar færustu yngri leikara. Hann hefur örugga og sterka sviðsnærveru, geysigott vald á tali og tungu svo unun er á að hlýða og hann hefur að öllu leyti hvern þann kost sem prýða þarf góðan leikara. Sjálfsagt að gefa honum færi á að spreyta sig í hlutverki þar sem á mæðir og Hjörtur Jóhann skilar Ríkharði frá sér með sóma, hefur fullt vald á hlutverkinu frá fyrsta andartaki til hins síðasta og er þó sannarlega lagt upp með líkamlega krefjandi frammistöðu.“
Jakob segir einnig:
„Ekki verður svo skilið við sýningu Borgarleikhússins á Ríkharði III öðruvísi en að farið sé nokkrum orðum um meðferð hins talaða máls. Oft hefur verið á það bent að íslensku leikhúsfólki er ábótavant þegar kemur að meðferð talaðs máls, og er það sérstaklega áberandi þegar kemur að texta í bundnu máli og upphöfnu, eins og finna má ekki síst í verkum Shakespeares. Hér verður ekki slíkra hnökra vart í neinum mæli og hlýtur það að skrifast til tekna leikstjóranum, Brynhildi Guðjónsdóttur. Hún hefur augljóslega tekið á sínum leikhóp með það að vanda til framsagnar og framburðar, enda lærð í sama landi og verkið verður til.“
Myndin britist á vefsíðu Borgarleikhússins. Hún sýnir Hjört Jóhann Jónsson og Kristbjörgu Kjeld í hlutverkum sínum í Ríkharði III. Bæði hafa þau fengið einróma lof fyrir framgöngu sína og leik.
Í verkum sínum fjallar Shakespeare (1564 -1616) um efni sinnar tíðar á þann hátt að textinn er hafinn yfir stað og tíma. Oft er uppsetning og texti verkanna á þann veg að þau verða þung og fjarlæg. Ekkert slíkt háir þessari sýningu. Leikin er ný þýðing. Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Hún á ríkan þátt í tengslunum sem skapast milli áhorfanda og grimma höfuðpaursins. Með fagurgala tekst honum að fá áhorfendur á sitt band eins og fórnarlömb sín á sviðinu.
Ánægjulegt var að sjá hve mikið af ungu fólki naut sýningarinnar þetta kvöld. Hún er vel til þess fallin að kveikja áhuga á meistaraverkum Shakespeares og sanna að á milli hans og áhorfandans er enn lifandi og skemmtilegur strengur þótt viðfangsefni verksins sé harmsögulegt.