13.10.2021 9:25

Macron vill fleiri kjarnorkuver

Macron boðaði að varið yrði einum milljarði evra til að framleiða nýja kynslóð af litlum eininga-kjarnakljúfum sem kynntir eru undir skammstöfuninni SMR.

Angela Merkel Þýskalandskanslari tók afdrifaríka ákvörðun eftir Fukushima Daiichi kjarnorkuslysið í Japan árið 2011 þegar hún ákvað að öllum kjarnorkuverum skyldi lokað í Þýskalandi og leitað yrði annarra leiða til að tryggja landinu orku. Þjóðverjar súpa meðal annars seyðið að þeirri ákvörðun núna þegar orkuverð rýkur upp úr öllu valdi og ekki sér fyrir endann á því hvernig skapa megi orkuöryggi í Þýskalandi með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Frakkar glíma ekki við neinn sambærilegan vanda. Um 70% af raforku þeirra kemur frá kjarnorkuverum. Þriðjudaginn 12. október kynnti Emmanuel Macron Frakklandsforseti 30 milljarða evru fjárfestingaráætlun sem miðar að því að græn-væða flugvéla-, bíla- og annan stóriðnað í Frakklandi fyrir 2030 fyrir utan vetnisvæðingu og stórframleiðslu á hálfleiðurum.

France-42Franskt kjarnorkuver.

Þessi áætlun forsetans er í senn hluti af stefnu hans fyrir forsetakosningarnar eftir hálft ár og liður í sameiginlegu grænu átaki allra ESB-ríkjanna. Í fréttum af boðskap forsetans er bent á að stefna hans sé á einu sviði á skjön við stefnuna annars staðar innan ESB og það sé við nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu.

Macron boðaði að varið yrði einum milljarði evra til að framleiða nýja kynslóð af litlum eininga-kjarnakljúfum sem kynntir eru undir skammstöfuninni SMR. Þeir eru ódýrari en venjuleg kjarnorkuver og taldir öruggari en kjarnakljúfarnir 58 sem eru þegar fyrir hendi í Frakklandi.

Í ávarpi til frönsku þjóðarinnar við kynningu á þessum miklu áformum sagði Macron að Frakkar gætu prísað sig sæla að eiga kjarnorkuver til að framleiða rafmagn. Gaf hann þar með til kynna að staða þeirra væri önnur og miklu betri en ESB-ríkjanna sem treysta á aðra orkugjafa.

Aðeins Bandaríkjamenn framleiða meiri raforku með kjarnorku en Frakkar. Íbúar Bandaríkjanna eru líka fimm sinnum fleiri en Frakklands. Kínverjar framleiða svipað magn raforku með kjarnorku og Frakkar en í Kína búa 20 sinnum fleiri en í Frakklandi.

Kjarnorkustefna Frakka er ekki óumdeild. Árum saman hafa vinstrisinnar viljað leggja meiri áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Hægrimenn styðja hins vegar kjarnorkuiðnaðinn. Nýlegar kannanir sýna að Frakkar skiptast í tvo álíka stóra hópa þegar þeir eru spurðir um kjarnorkuverin.

Ólíklegt er að Þjóðverjar hverfi frá stefnunni sem Angela Merkel mótaði í skyndingu fyrir 10 árum. Líkur eru á að Græningjar sitji í næstu stjórn Þýskalands en þeim hefur vegnað vel í Þýskalandi þrátt fyrir að ekki sé tekist á um kjarnorkumál og allir flokkar leggi áherslu á umhverfis- og loftslagsmál í stefnuskrám sínum. Flokkur Merkel stórtapaði í þingkosningunum 26. september 2021.

Í Frakklandi eru vinstri flokkarnir í molum og enginn spáir því að Macron stafi hætta af þeim eða græningjum í kosningunum vorið 2022. Sótt er að honum frá hægri af þeim sem telja hættu á að franskt þjóðfélag molni vegna áhrifa menningarhópa sem viðurkenna ekki grunngildi þess. Að sporna gegn þeirri hættu sé brýnna viðfangsefni en grafa undan atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar með því að svipta hana orkugjöfum.